Lausaletur: „Nær að fanga stemnignuna þegar eitthvað hótar því að kippa fótunum undan heiminum“

Gréta Sigríður Einarsdóttir skrifar: Meðan á heimsfaraldri COVID-19 stóð var fólk mikið að velta fyrir sér hversu djúpstæð áhrif þetta tímabil ætti eftir að hafa á heiminn. Það var talað um að handabandið myndi aldrei snúa aftur og að þetta tímabil einangrunar og ótta ætti eftir að setja sitt merki rækilega á menningarafurðir. Tídægru var reglulega sveiflað til sönnunar þess að fyrir hvern dag sem við verðum heima í jólakúlunni að baka súrdeigsbrauð yrði okkur umbunað með ódauðlegri list. Um leið og síðustu takmörkununum vegna veirunnar var aflétt hvarf þessi sannfæring eins og dögg fyrir sólu. Ég hugsa eins lítið og ég get um þetta tímabil, og þá helst ef ég tek lúna grímu upp úr lítið notuðum jakkavasa. Það var heldur enginn tilbúinn til að lesa um seinni heimsstyrjöldina árið 1946, ekki að ég sé að bera það saman. Málið er að við þurfum öll smá tíma til að melta, dálitla fjarlægð áður en við gerum þennan tíma upp að fullu. Lausaletur eftir Þórdísi Helgadóttur fjallar ekki um COVID-19, heldur annars konar faraldur. Þessi nýjasta bók Þórdísar er önnur skáldsaga hennar. Áður kom út skáldsagan Armeló en líka ljóð og smásögur. Lausaletur var á dögunum tilnefnd til íslensku bókmenntaverðlaunanna. Þetta er þó ekki alveg í fyrsta sinn sem Þórdís hlýtur slíka tilnefningu því hún er ein af Svikaskáldunum, skáldahópi sem hlaut tilnefningu fyrir skáldsöguna Olíu árið 2021. Lausaletur fjallar ekki um covid en veröldin sem Þórdís teiknar upp er samt eftirminnileg frá þeim tíma. Bókin gerist í náinni framtíð, þar sem nógu langt er liðið frá faraldrinum til að fólk hugsi með dálítilli nostalgíu til þessa tíma en ekki svo langt að það sé búið að gleyma hvernig allt gekk fyrir sig. Um þennan heim geisar annars konar faraldur, aeod eða atypical early onset dementia. Ógnvænlegur heilahrörnunarsjúkdómurinn getur lagst á fólk á öllum aldri, og jafnvel grasserað lengi áður en upp um hann kemst. Meginsögusvið bókarinnar er prentsafn sem enginn heimsækir lengur vegna takmarkana og smitgátar. Þar sitja tveir safnverðir og glíma við missi, sambönd og tengslin við hvort annað. Írena og Björn eru kannski langt frá hvort öðru í aldri en þau nálgast hvort annað í litlum stundum yfir kaffibollum í rónni á safninu. Bókin skiptist í þrjá hluta og hver þeirra í mislanga kafla, suma bara á við hálfa blaðsíðu. Það er strax orðið eitthvað óraunverulegt við að lesa um heim þar sem fæstir fara út án grímu og enginn vill standa of nálægt ókunnugum. Írena er þar að auki sannfærð um að grímur og smitvarnir séu þjóni engum tilgangi í þessum faraldri; það sé örplastið sem valdi honum. Eins og margir muna var sérstaklega óþægilegt að vera til meðan covid-faraldurinn geisaði og hvorki var til lækning né bóluefni. Allir voru með sínar kenningar hinsvegar. Þessi uggur liggur yfir borginni eins og mara. Prentsafnið er nokkurs konar vin í eyðimörkinni, þar sem ekki þarf að hafa áhyggjur af slíku. Lokað safn, þar sem starfsfólkið fær að skrásetja og dytta að án þess að gestir trufli með heimsóknum er bæði fullkomnasti og dauðasti staður sem hægt er að ímynda sér. Þar er hægt að fínpússa söguna og leggjast í vangaveltur um prentlistina, tæknina að baki og áhrifunum sem hún hafði á heiminn. Á safni er hins vegar verið að varðveita eitthvað sem annars væri horfið og ef enginn kemur að skoða það skiptir það engu máli. Þegar á líður bókina skjóta ýmiss konar persónur upp kollinum og fortíðin kemur í bakið á safnvörðunum okkar. Það er gott að lesa textann í bokinni. Þórdís er lunkin við að stilla upp senum þannig að þær standi ljóslifandi fyrir manni, líkt og kaffistundirnar á safninu. Hún skrifar lipran og skemmtilegan texta og heimurinn sem hún skapar er skýr. Bókin fer rólega af stað og það virðist ekki endilega í fyrsta sæti að sigla söguþræðinum örugglega í höfn. Þegar líður á seinni hluta bókarinnar tekur framvindan þó við sér og eitt og annað sem kynnt var til sögunnar fer að skila sér. Það er þó ekki þar með sagt að lítið gerist í bókinni. Þar er sitt lítið af hverju, ást, losta, ofbeldi og leitinni að sjálfum sér. Inn á milli fáum við innlit á prentsafnið, þar sem sögð er sagan af því hvernig tjáning mannkynsins breyttist gegnum söguna. Prentverkið er upphafið, tæknin sem breytti bæði heiminum og hvernig við hugsum, en á sama tíma liggja vélarnar kaldar inni á safni, aðeins prentað á þær stöku sinnum ef hópur gesta sækir safnið heim til að sjá hvernig heimurinn virkaði einu sinni. Það er nóg að gerast í bókinni. Á sumum sviðum, tekst höfundi vel upp. Persónurnar, ekki síst Írena, eru ljóslifandi og við lesturinn fær maður á tilfinninguna að heimur bókarinnar stefni hraðbyri í átt að eigin glötun. Höfundur gerir sjálfur heimsendasöguna að umtalsefni, söguna sem ekki er hægt að skrifa því það er ekkert áhugavert við algjöra tortímingu. Bókin fangar vel þessa stund þar sem allt er skrýtið því engin lausn er í sjónmáli og enginn veit alveg í hvorn fótinn hann á að stíga. Þetta er allt saman óþægilega eftirminnilegt frá síðasta heimsfaraldri. Lausaletur er ekki covid-bók en hún nær að fanga stemnignuna þegar eitthvað hótar því að kippa fótunum undan heiminum sem við þekkjum. Þetta er ekki heldur dystópía en hún varar okkur þó engu að síður við hættunum sem eru aldrei langt undan. Henni tekst vel að benda á hvað yfirvofandi heimsendir er bæði óþægileg tilhugsun og hvað ástandið getur fljótt orðið hversdagslegt. Gréta Sigríður Einarsdóttir, bókmenntagagnrýnandi Víðsjár á Rás 1, rýnir í Lausaletur eftir Þórdísi Helgadóttur. Gréta Sigríður Einarsdóttir er bókmenntafræðingur og fréttamaður. Hún flutti pistil sinn í Víðsjá á Rás 1 sem finna má á í spilaranum hér fyrir ofan.