KA og Fram mættust í 8-liða úrslitum bikarkeppni karla í handbolta í kvöld. Þar vann KA fimm marka sigur eftir spennandi leik, 30-25. Heimamenn byrjuðu vel gegn ríkjandi bikarmeisturum Fram. Eftir tíu mínútna leik kom Morten Linder KA þremur mörkum yfir, 5-2. En þótt KA hafi haft undirtökin í fyrri hálfleik kom Fram alltaf til baka. Dánjal Ragnarsson jafnaði á 20. mínútu fyrir Fram, 8-8. KA komst þrívegis í þriggja marka forystu í fyrri hálfleik en einu marki munaði í hálfleik, 13-12. Fram byrjaði seinni hálfleik betur og komst í fyrsta skipti yfir á 39. mínútu, 16-17. Ívar Logi Styrmisson skoraði sitt fjórða mark í leiknum þegar hann kom Fram tveimur mörkum yfir á 42. mínútu, 18-20. Aftur jöfnuðu Akureyringar á 44. mínútu með marki frá Bjarna Ófeigi Valdimarssyni, 20-20. Þaðan sótti KA aftur í sig veðrið og vann upp forystu á nýjan leik. Fimm mörkum munaði við leikslok, 30-25. KA er því fyrsta liðið til að ná farmiða í undanúrslit bikarsins. Morten Linder var markahæstur KA manna með sjö mörk og þar á eftir er Bjarni Ófeigur Valdimarsson með sex. KA varð síðast bikarmeistari árið 2004. Ljóst er að Fram mun ekki verja titilinn. Hinir bikarleikirnir í gangi Öll 8-liða úrslitin fara fram í kvöld. Afturelding og FH eigast nú við í Mosfellsbæ og sá leikur er sýndur beint á RÚV 2. Þá keppast ÍR og Fjölnir um sæti í undanúrslitum en Fjölnir er eina úrvalsdeildarliðið sem enn er í keppninni. Loks eru það Haukar og HK sem mætast í Kópavogi. Fréttin verður uppfærð með úrslitum allra leikja 8-liða úrslitanna.