Þjóðarleiðtogi lét gabbast af gervigreindarmyndbandi um valdarán í Frakklandi

Gervigreindarmyndband sem sýndi falsfrétt um valdarán í Frakklandi fór á flug á samfélagsmiðlum. Í myndbandinu er því haldið fram að ónefndur hershöfðingi hafi steypt Emmanuel Macron Frakklandsforseta af stóli. Myndbandið sýnir fréttakonu í París, bak við hana má sjá vopnaðan hermann á götu, þyrlu sveima í átt að Eiffel-turninum og áhyggjufulla vegfarendur. Ýmislegt bendir til þess að myndbandið sé falsað. Fréttamiðillinn sem vísað er til er ekki til, hermaðurinn er ekki í réttum búningi og ekkert hljóð berst frá þyrlunni. Þrátt fyrir það féll einn þjóðarleiðtogi fyrir myndbandinu og hafði samband við Emanuel Macron, forseta Frakklands. Macron óskaði eftir því að META fjarlægði myndbandið, en beiðninni var hafnað í fyrstu.