Jólasveinar fóru ránshendi um matvöruverslun

Kanadíska lögreglan rannsakar stórfelldan þjófnað úr matvöruverslun í vikunni þar sem um fjörutíu menn, klæddir sem jólasveinar og -álfar, höfðu á brott með sér matvæli að jafnvirði að minnsta kosti 250.000 króna. Þeir tilheyra hópi sem kallar sig Robins des Ruelles, sem er tilvísun í Hróa hött. Hann birti í kjölfarið yfirlýsingu þar sem þeir sögðu ránsfenginn renna til nauðstaddra. Hluti hans var skilinn eftir við jólatré á torgi í Montreal á þriðjudagskvöld og segir hópurinn að afganginum verði komið til matvæladreifingar hjálparsamtaka. Markmiðið með glæpnum er að varpa ljósi á hækkandi framfærslukostnað og saka jólasveinarnir stórar verslanakeðjur um að notfæra sér verðbólguástand í gróðaskyni. „Handfylli stórfyrirtækja halda grunnþörfum okkar í gíslingu,“ sagði í yfirlýsingunni. Fyrirtækin væru að reyna að sópa að sér eins miklum fjármunum og þau gætu á kostnað almennings. Jólasveinarnir leika lausum hala Fyrirtækið Metro á umrædda verslun auk sjö annarra. Í yfirlýsingu þess stóð að glæpurinn væri óásættanlegur og að vaxandi þjófnaður væri meðal þess sem ýtti undir verðhækkun. Lögreglan sagðist hafa glæpinn til rannsóknar en hefur ekki handtekið neinn. Fjörutíu jólasveinar og -álfar fóru ránshendi um kanadíska matvöruverslun í vikunni. Þeir segja ránsfenginn renna til nauðstaddra. Enginn hefur verið handtekinn.