Íslensk stjórnvöld undirstrikuðu stuðning Íslands við Alþjóðlega sakamáladómstólinn í Haag á árlegum þingfundi aðildarríkja hans fyrr í mánuðinum. Tilkynning um fundinn birtist á vef stjórnarráðsins á föstudag. Bæði Bandaríkin og Rússland hafa gagnrýnt Alþjóðlega sakamáladómstólinn af hörku undanfarin ár vegna rannsókna á mögulegum stríðsglæpum og handtökuskipana gegn bandamönnum þeirra. Dómstóllinn gaf út handtökuskipanir gegn Vladímír Pútín Rússlandsforseta og nokkrum rússneskum ráðamönnum vegna stríðsins í Úkraínu. Bandaríkin hafa aftur á móti lagt efnahagsþvinganir á dómstólinn og starfsmenn hans vegna handtökuskipana hans gegn Benjamín Netanjahú forsætisráðherra Ísraels og ísraelskum ráðamönnum í tengslum Í tilkynningu stjórnarráðsins er bent á að dómstóllinn hafi „staðið andspænis stigvaxandi ógnum gegn stofnuninni og embættismönnum hennar í formi netárása, handtökuskipana og þvingunaraðgerða.“ Sesselja Sigurðardóttir, skrifstofustjóri laga- og stjórnsýsluskrifstofu, ávarpaði þingfundinn og sagði íslensk stjórnvöld hafa þungar áhyggjur af fjandsamlegum aðgerðum gegn dómstólnum. „Þótt fyrirheitin um alþjóðlegan frið séu að bresta veitir það okkur hugarró að standa á þessum þingfundi með öðrum aðildarríkjum sem sýna dómstólnum samheldni.“ „Það skiptir höfuðmáli að við mætum áskoruninni og höldum hlífiskildi yfir Alþjóðlega sakamáladómstólnum svo hann geti áfram verið skjöldur okkar gegn grimmdarverkum,“ sagði Sesselja. „[...] Það sem ekki er hægt að ræða um er skuldbindingin sem við höfum öll gengist undir um að tryggja ævarandi virðingu við alþjóðalög og framfylgd þeirra. Barátta okkar gegn refsileysi er mikilvægari en nokkru sinni fyrr.“