Bandaríska dómsmálaráðuneytið birti þúsundir skjala um mál barnaníðingsins Jeffrey Epstein í dag. Ekki er enn búið að fara í gegnum öll skjölin en meðal gagnanna sem birt hafa verið eru ljósmyndir af Epstein með þekktum mönnum á borð við Bill Clinton fyrrum Bandaríkjaforseta, Andrew Mountbatten-Windsor fyrrum Bretaprins og tónlistarmennina Mick Jagger og Michael Jackson. Töluvert efni í skjölunum hefur verið strikað út og andlit fólks hulin á ljósmyndum til þess að vernda nafnleynd tiltekinna aðila. Enn á eftir að birta töluvert af skjölum en áætlað er að fleiri gögn verði birt á næstu dögum. Samkvæmt svonefndum lögum um gagnsæi Epstein-skjalanna (Epstein Files Transparency Act), sem Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði 19. nóvember síðastliðinn, átti að birta öll skjölin innan þrjátíu daga og rann sá frestur út í gær. Demókratar á þingi lýstu yfir óánægju með að skjölin hefðu ekki verið birt í heild sinni innan tímafrestsins og að mikill hluti hefði verið strikaður út. „Þetta safn rækilega ritskoðaðra blaðsíðna sem dómsmálaráðuneytið birti í dag er bara brot af heildarsönnunargögnunum,“ sagði Chuck Schumer, leiðtogi þingflokks Demókrata á öldungadeildinni. „Það að birta einfaldlega fjall af útstrikuðum blaðsíðum brýtur gegn andsa gegnsæis og gegn lagabókstafnum. Til dæmis voru allar 119 blaðsíðurnar í einu gagninu alfarið strikaðar út.“ Todd Blanche aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna sagði ráðuneytið hafa tekið saman lista af rúmlega 1.200 þolendum í máli Epsteins og ættingjum þeirra og haldið eftir tilteknum gögnum til að vernda nafnleynd þeirra.