Dómstóll í París synjaði á föstudag beiðni franskra stjórnvalda um að láta banna starfsemi kínversku netverslunarinnar Shein í þrjá mánuði. Dómstóllinn komst að þeirri niðurstöðu að bannið við starfsemi Shein bryti gegn meðalhófsreglu. Hneyksli hefur umvafið Shein í Frakklandi undanfarna mánuði vegna frétta um vafasamar vörur sem seldar hafa verið á vettvangi verslunarinnar. Þar á meðal eru kynlífsdúkkur í líki barna, vopn eins og hnúajárn og sveðjur og ólögleg lyf. Dómstóllinn taldi beiðni franskra stjórnvalda um að stöðva starfsemi Shein í þrjá mánuði ekki samræmast meðalhófi, enda hefði verslunin tekið hinar umdeildu vörur úr sölu þegar hún var innt eftir því. Ákvörðun dómstólsins fylgdi hins vegar skipun þess efnis að Shein mætti ekki halda áfram sölu á „efni fyrir fullorðna sem telst klámfengið efni“. „Við fögnum þessari ákvörðun,“ sagði Shein í tilkynningu um dóminn. „Helsta forgangsatriði okkar er enn að vernda franska neytendur innan ramma viðeigandi laga og reglna.“ Samkvæmt verslunarappinu Joko drógust sölur á Shein saman um 45% á milli október og nóvember. Sölur jukust nokkuð á ný undir lok nóvember, líklega í takt við hátíðakaup, en hafa ekki náð fyrri hæðum aftur. Lögmenn Shein segja verslunina vera fórnarlamb „klíku“ stjórnmálamanna og fjölmiðla og hafa líkt aðför franskra stjórnvalda við nornaveiðar. Ekki eru öll kurl komin til grafar í Shein-málinu. Saksóknarar í París hafa hafið sakamálarannsókn gegn Shein og fleiri netverslunum. Fjárlagafrumvarp sem nú er til umræðu á franska þinginu gerir jafnframt ráð fyrir skatti á smávörur sem fluttar eru inn til Evrópu.