Úkraínumenn gerðu á föstudag drónaárás á olíuflutningaskip í svonefndum „skuggaflota“ Rússa á Miðjarðarhafi. Úkraínska öryggisþjónustan SBÚ gaf út yfirlýsingu þar sem fram kom að skipið hefði verið tómt þegar árásin var gerð. Árásin hafi verið gerð á hlutlausu hafsvæði og að skipið sé nú ónothæft vegna skemmdanna. Gögn MarineTraffic sýna að skipið, sem heitir Qendil, var undan ströndum Líbíu þegar ráðist var á það. Heimildarmaður Reuters innan SBÚ lét af hendi myndband af sprengingu um borð. Qendil sigldi undir ómönskum sjófána og var á leið frá indnesku hafnarborginni Sikka til rússnesku hafnarinnar Úst Lúga á Eystrasalti. Úkraínumenn segja skipið vera hluta af „skuggaflota“ sem Rússland notar til að flytja olíu undir fölsku flaggi og fjármagna hernað sinn í Úkraínu. Úkraínskur embættismaður réttlætti árásina í viðtali við úkraínska vefréttamiðilinn Úkraínska Pravda . „Þetta skip var notað til að komast í kringum efnahagsþvinganir og þéna peninga sem voru notaðir í stríðið gegn Úkraínu. Þar af leiðandi var þetta, frá sjónarhól þjóðaréttar og stríðslaga og -venja, fullkomlega lögmætt skotmark fyrir SBÚ. Óvininum verður að skiljast að Úkraína mun ekki láta staðar numið og mun sigra hann hvarvetna í heiminum, hvar sem hann er.“