Lögregla hefur handtekið tvo vegna líkamsárásar í miðbænum.RÚV / Ragnar Visage Mikill erill var hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt. Í lögreglupósti til fjölmiðla kemur fram að tilkynnt hafi verið um æstan aðila í miðbænum sem ekki hafi framvísað skilríkjum að kröfu lögreglu. Hann reyndist vera með fíkniefni í fórum sínum. Lögregla rannsakar jafnframt líkamsárás í miðbænum þar sem margir veittust að einum. Tveir hafa verið handteknir og vistaðir vegna málsins. Enn annar aðili var handtekinn og fluttur á lögreglustöð eftir stympingar við dyraverði í miðbænum. Honum var sleppt þegar komið var á lögreglustöð en hann mætti aftur á lögreglustöðina klukkustund síðar og var þá handtekinn og vistaður vegna ástands.