„Við keppumst við að koma okkur fyrir áður en kalkúnninn fer í ofninn“

Ólafur Sveinn Jóhannesson ljóðskáld vakti athygli fyrir fyrstu bók sína KLETTUR – ljóð úr sprungum sem er einlæg frásögn af meðal annars foreldramissi sem hann upplifði ungur. Fyrir bókina fékk hann ljóðaverðlaunin Maístjörnuna og hann fylgdi henni eftir með ljóðabókinni Tálknfirðingur BA þar sem hann dregur upp áhrifamiklar myndir af mannlífi og tilveru fyrir vestan af næmri tilfinningu og húmor. Hann tók svo upp á því í desember að bjóða vinum og fylgjendum sínum á Facebook upp á ljóð, eitt á dag, í ljóðadagatali sem hann heldur úti. Uppátækið hefur vakið lukku og margir bíða spenntir eftir ljóði dagsins. Þau eru bæði fyndin og hjartnæm og vekja upp gleði og sorg, kannski eins og jólahátíðin sjálf. Þamm 6. desember birti hann ljóð um bróður sinn Árna Grétar Jóhannesson sem lést 3. janúar. Ljóðið er birt hér með leyfi höfundar: Undir hátíðleika aðventunnar á bak við glýju jólaljósanna lúrir hjartasorg og sársauki söknuður eftir ástvinum sem fóru allt of fljótt Eins og allar aðrar tilfinningar sem við upplifum á jólunum er sorgin engin undantekning hún margfaldast sem aldrei fyrr líkt og sinueldur í roki Á sjöunda dag jóla kvaddir þú þennan heim elsku bróðir minn ljónshjarta með bláu augun þín blíð tár mín renna til hafs Tíminn stoppar ekki fyrir neinum svo lífið heldur ótrautt áfram jól eftir jól eftir jól en minningar leiða mig fram á veginn halda þéttingsfast í hönd mína Svo ég gleymi þér aldrei Skáldið ræddi ljóðagerðina og dagatalið við Júlíu Margréti Einarsdóttur á menningarvef RÚV. Hann kveðst hafa byrjað við að semja ljóð í efstu bekkjum grunnskóla. „Svo voru það allar dagbækurnar og fílóföxin sem ég var oft að skrifa niður einhverjar sögur, sem voru eins konar prósaljóð.“ Fannst erfiðara að setja persónulegar hugleiðingar í bundið mál Fyrstu ljóðin sem hann samdi fékk enginn að lesa en svo fór hann að semja tækifærisvísur fyrir þorrablót og skemmtanir á Tálknafirði sem vöktu mikla lukku. Mér hefur samt fundist erfiðara að setja mínar persónulegu hugleiðingar í bundið mál, þó svo að ég hafi minn stíl við ljóðagerðina. Mín fyrsta ljóðabók var svo gefin út hjá Bjarti árið 2021. Ljóðið er lífið Þegar hann er beðinn um að lýsa því hvaða þýðingu ljóðið hefur fyrir honum segir hann einfaldlega: „Ljóðið er lífið. Hvar værum við án listsköpunar? Ljóðlistin krefst einskis, en gefur allt,“ segir Ólafur Sveinn og hlær: „Djók, eða ekki.“ En ljóðið gefur honum kærkomna fyllingu. „Þetta er einhvers konar platform til þess að skapa, en líka til þess að varðveita minningar og gera upp lífið. Ég get lesið margar ljóðabækur aftur og aftur og fundið eitthvað nýtt í hvert skipti.“ Mikill lestur á heimilinu og bókasafnið alltaf heimsótt á laugardögum Kveðskapur var allt um lykjandi í uppeldinu. „Pabbi var ávallt að semja tækifærisvísur og margt fólk í sveitinni hennar mömmu, Rauðasandshreppi, fór með heilu kvæðabálkana,“ rifjar hann upp. Það var mikið af bókum á heimilinu, en pabbi las gríðarlega mikið, sem smitaðist yfir á okkur systkinin í æsku. Laugardagar á Tálknafirði fóru gjarnan í bókalestur því þá var bókasafn Ástu opið, þann eina dag í viku, á milli níu og tólf. „Pabbi fór með okkur hvern laugardagsmorgun, meðan ég var strákur, að velja bók eða bækur fyrir vikuna,“ segir hann. Ég hef því miður ekki gefið mér eins mikinn tíma til að lesa og ég gerði á unglingsárum. En þá kemur ljóðið sterkt inn. Það má lesa góða ljóðabók á skömmum tíma og hún getur setið með manni ævilangt eftir það. Fékk samviskubit gagnvart ljóðinu Ljóðadagatalinu lýsir hann sem áskorun á sjálfan sig. Hann sagði engum frá áformum sínum fyrr en hann sendi eiginkonu sinni Nönnu Kristjönu Traustadóttur eitt þeirra til yfirlestrar. „Líklega er ég bara með fomo yfir því að vera ekki að gefa út bók fyrir þessi jól. Önnur krefjandi verkefni hafa tekið mikinn tíma og orku frá mér svo ég hef verið með eins konar samviskubit gagnvart ljóðinu,“ segir hann kankvís. Honum líður vel að semja og þykir það gaman en segir að það sé líka áskorun. „Svo er ég líka einstaklega mikið jólabarn.“ Ekki eintóm gleði og glimmer Ljóðin eru fjölbreytt, bæði sorgleg og brosleg, og það er með vilja gert að sýna báðar hliðar í kveðskapnum. „Ég vildi ekki einblína á eintóma jólagleði og glimmer, ég veit að sumum finnst jólin erfiður tími og kvíðvænlegur, svo það eru nokkur ljóð í dagatalinu sem fjalla um það, bæði á kómískan hátt og alvarlegan máta.“ Markmiðið er samt að skrifa til fólks og vekja hughrif, snerta tilfinningar, eitthvað sem við mörg erfitt með að gera. Jóladagatalið hreyfir vonandi við einhverjum og gefur þeim grið. Kveður árið með von um bjarta framtíð og fleiri ljóð Jólabarnið Ólafur Sveinn hlakkar til aðfangadags. Þá verða þau Nanna með öll börnin heima en þau eru fimm á aldrinum 11 til 21 árs. „Við erum bókstaflega nýflutt í nýtt hús og keppumst við að koma okkur fyrir áður en kalkúnninn fer í ofninn. Ég hendi kannski í lítinn ananasfrómas fyrir okkur Nönnu, en börnin eru ekki eins spennt fyrir slíku, svo þau fá eitthvað annað gott í desert. Fyrir nokkrum árum byrjuðum við Nanna að fara í jólamessu á aðfangadag og það er einnig planið í ár.“ Og hann lítur björtum augum til framtíðar og hlakkar til að fagna nýju ári með sínum nánustu. „Ég kveð árið 2025, með von um bjarta framtíð og fleiri ljóð, góða heilsu og meiri ást.“ desember birti Ólafur þetta ljóð: Á bröttum sjávarbakka við gamla þjóðleið standa Skjöldur og Krossi vörð um ábúendur í Krossadal ~ Af brauðstriti og útsjónarsemi hafa þau byggt sér heimili úr svörtu fjörugrjóti og breskum togara ~ Ilmur af soðnu hangilæri leggst yfir dalinn rauðmáluð jólastjarna hangir í hringlaga glugga ~ Í miðri borðstofunni er máluð mynd þrír hvítir englar eins og kornabörn með vængi ~ Útskornar styttur úr hvalbeini skreyta sólbekkina og við lítinn einirunna standa kuðungar og olnbogaskeljar ~ Við sjávarnið og hvíta jörð verja hjónin Salóme og Samúel síðustu jólunum í Krossadal Hér er hægt að fylgjast með ljóðadagatali Ólafs Sveins á Facebook.