Það er þekkt vandamál að verslað sé of mikið inn fyrir stórhátíðir og gómsætir jólaréttir endi í ruslinu. Lykillinn til að sporna við þessu er að skipuleggja vel innkaupin og miða við rétt magn á fjölda gesta. Á vef Leiðbeiningastöðvar heimilanna , eru gagnlegar leiðbeiningar um undirbúning fyrir matarboð yfir hátíðirnar. Jenný Jóakimsdóttir, framkvæmdastjóri Kvenfélagasambandsins, sem stendur að Leiðbeiningastöð heimilanna, segir að því geti fylgt mikill sparnaður að skipuleggja sig vel. „Ég held að það mikilvægasta sem maður gerir er í rauninni að hugsa bara hversu mikið þarf fyrir hvern einstakling og hvað maður er með,“ segir hún. Á síðunni má finna lista yfir viðmið um áætlað magn á mann fyrir jólamatinn. Hve mikið magn af forréttinum, kjöti og meðlæti þurfi í raun fyrir hvern og einn til að komast hjá matarsóun. Jenný segir algengast að meðlætið endi í ruslinu, en fyrir neðan má finna viðmið um magn á mann fyrir bæði forréttinn og meðlætið. Þegar kemur að aðalréttinum sé oft miðað við stærri skammti á mann, til þess að eiga smá afgang til að narta í daginn eftir. Huga þarf þó sérstaklega að skammtastærðum hjá börnunum. „Segjum til dæmis á aðfangadagskvöld, maður er að hugsa að maður ætli að gefa börnunum eitthvað gott að borða en þau eru oft ofurspennt og borða bara mjög lítið. Þannig maður þarf að huga að því ef maður er með mörg börn í hópnum að ekki telja þau sem heila manneskju.“ Mikilvægt að skoða hvað sé til áður en verslað sé inn Jenný segir að með því að nota viðmiðin sé hægt að reikna skipulega upp hvað þurfi nákvæmlega að kaupa inn fyrir jólin. „Og maður á náttúrulega sjálfsagt að gera það í dag þegar allt er orðið svona dýrt.“ Mikilvægt sé að skoða einnig í skúffum og skápum hvað sé til áður en haldið er í innkaupaleiðangur. „Ég hef nú alveg sjálf lent í því að kaupa aftur Ora grænar baunir en svo bara átti ég dós frá því í fyrra. Þannig allt í einu var ég komin með þrjár dósir en þurfti í rauninni bara eina,“ segir Jenný.