„Demókratavinir Epsteins“ áberandi í nýbirtum skjölum en lítið um Trump

Þúsundir blaðsíðna úr Epstein-skjölunum svokölluðu voru birt af bandaríska dómsmálaráðuneytinu seint í gærkvöld. Athygli vekur hve mikið af upplýsingum og ljósmyndum hefur verið strikað út, jafnvel heilu blaðsíðurnar. Í einu tilviki var 119 blaðsíðna vitnisburður strikaður út í heilu lagi. Demókratar hafa einnig gagnrýnt að skjölin hafi ekki verið birt í heild sinni eins og lög, sem Donald Trump Bandaríkjaforseti undirritaði, kveða á um og segja birtingu skjalanna vekja tortryggni. En það er fleira sem vekur athygli. Myndir og skjöl sem áður hafa komið fram í dagsljósið sýna að talsverð tengsl voru milli kynferðisglæpamannsins Jeffreys Epstein og Trump. Það er hins vegar mjög lítið um Trump í skjölunum sem birt voru í gær. Hins vegar eru mjög margar myndir af Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseta úr röðum Demókrataflokksins. Starfsfólk dómsmálaráðuneytisins og embættismenn úr Hvíta húsinu hafa gert mikið úr þessu og í opinberri yfirlýsingu frá Hvíta húsinu eftir birtingu skjalanna er talað um „Demókratavini Epsteins“. Tengsl Clintons við Epstein eru þekkt en hann hefur aldrei verið opinberlega sakaður um lögbrot í tengslum við hann. Susie Wiles, skrifstofustjóri Hvíta hússins, sagði í viðtali við Vanity Fair á dögunum að Trump hefði rangt fyrir sér um meint glæpsamleg tengsl Clintons við Epstein. Fleiri þekkt nöfn, sem ekki hafa sést áður í tengslum við Epstein, birtust í skjölunum í gær. Þeirra á meðal eru Michael Jackson, Mick Jagger og Diana Ross. Nærri 30 ár síðan hún tilkynnti Epstein til FBI fyrir barnaklám Í skjölunum kemur líka fram að lögregluyfirvöldum hafði ítrekað verið gert viðvart um að ekki væri allt með felldu hjá Epstein. Elsta tilkynningin sem barst FBI vegna hans er frá 1996. Þá tilkynnti Maria Farmer til FBI að Epstein hefði stolið ljósmyndum af barnungum systrum hennar og selt þær mögulegum kaupendum. Þá hafi hann beðið manneskju, hverrar nafn hefur verið yfirstrikað í skjölunum, að taka myndir af ungum stúlkum í sundi og hótað henni að brenna húsið hennar til kaldra kola ef hún segði frá.