Akraneskaupstaður telur tilefni til að taka upp nýja nálgun í samningagerð við sveitarfélög og veitingu þjónustu í gegnum slíka samninga vegna væntanlegra breytinga á sveitarstjórnarlögum. Hvalfjarðarsveit hafnaði tillögum Akraneskaupstaðar um skipun starfshóps til að meta kosti og galla við sameiningu sveitarfélaganna. Víðtækar breytingar á sveitarstjórnarlögum Innviðarráðherra kynnti í september víðtækar breytingar á sveitarstjórnarlögum. Drög að frumvarpi um breytingarnar birtust í samráðsgátt og eru nú í vinnslu. Meðal breytinga sem ráðherra boðar er að eru skýrari reglur um að kostnaðarskipting byggi á raunkostnaði við þjónustu í hverju sveitarfélagi og heimild sveitarfélags sem veitir þjónustu að reikna sérstakt álag vegna veittrar þjónustu. Líf Lárusdóttir, forseti bæjarráðs Akraness, segir bæjarráð hafa verið með málið til skoðunar síðan þá. Á síðasta fundi bæjarráðs var bókað að Akraneskaupstaður telji tilefni til að taka upp nýja nálgun við samningagerð við önnur sveitarfélög og það sem snýr að Akraneskaupstað sem þjónustuveitanda. „Við erum að horfa á bæði núverandi samninga og eins almennt framvegis þegar við gerum nýja samninga. Ég tel almennt mikilvægt að sveitarfélögin endurskoði nálgun sína við gerð saminga um samvinnu og sameiginlega þjónustu og taki skýrt mið af raunkostnaði. Bæði til að auka gagnæi en ekki síður gagnvart sanngirni. Með því að miða samninga við raunkostnað þá eykst líka fjárhagsleg ábyrgð og skilvirkni í rekstri. Sveitarfélögin hafa þá líka betri forsendur til að meta hvort samvinna skili raunverulegum ávinningi.“ Höfnuðu tillögu um að taka saman kosti og galla sameiningu Hvalfjarðarsveit hafnaði í 26. nóvember tillögu bæjarstjórnar Akraness um að sveitarfélögin stofni stýrihóp til að taka saman greiningu óháðs aðila á kostum og göllum þess að sveitarfélögin sameinist. Sveitarfélagið samþykkti að ráðast í viðhorfskönnun um sameininguna. Á fundi bæjarráðs Akraness 27. nóvember kom fram að bæjarráð harmi að sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hafi ákveðið að verða ekki við ósk um könnunina. „Við teljum að slík athugun hefði getað orðið fagleg, gagnsæ og til hagsbóta fyrir íbúa beggja sveitarfélaga - án þess að fyrir lægi ákvörðun eða skuldbinding um sameiningu.“ Niðurstöðurnar og kynning fyrir íbúa hefði getað veitt íbúum beggja sveitarfélaga mikilvægar upplýsingar til að vita hvaða þýðingu sameining hefði. Í fundargerðinni kemur einnig fram að breytingar á sveitarstjórnarlögum eigi eftir að hafa áhrif á núverandi þjónustusamninga sveitarfélaganna og kalla á endurskoðun þeirra. Að mati bæjarráðs hefði sameiginleg greining á framtíðarstarfi, þar á meðal mögulegri sameiningu sveitarfélagnna, getað auðveldað þeim að bregðast sameiginlega við þessum breytingum, að því er segir í fundargerðinni. „Við virðum að sjálfsögðu ákvörðun sveitarstjórnar Hvalfjarðarsveitar þó við deilum ekki þeirri sýn hennar að núverandi sveitarstjórn hafi ekki umboð til að hefja slíkt stefnumarkandi verkefni eins og fram kemur í þeirra bókun. Þau sem nú sitja í sveitarstjórnum á Íslandi hafa fullt umboð til að stýra sínum sveitarfélögum allt fram að kosningum í maí 2026.“ Samþykkt var á fundi bæjarráðs að taka upp nýja nálgun í samningagerð við önnur sveitarfélög og sem snúa að Akraneskaupstað sem þjónustuveitadana, vegna lagabreytinganna. Samþykkt var að samningar bæjarfélagsins yrðu yfirfarnir og að horft yrði með skýrari hætti á raunkostnað í samstarfinu. „Við erum strax farin að horfa í þessa samninga sem eru til staðar og þá undirbúa okkar verklag þegar kemur að nýjum samningum sem við komum til með að gera. Þannig að við erum í rauninni að vinna þessa grunnvinnu en gerum ráð fyrir að þetta sé bara að taka gildi og að við séum að horfa á þetta strax.“ Samvinna við önnur sveitarfélög með skýrum hætti Líf telur gögn sem hefðu komið út úr vinnu starfshóps um sameiningu getað verið gott innlegg fyrir íbúa í viðhorfskönnun til að átta sig á kostum og göllum sameiningar. Aðspurð hvort þessi bókun á fundi bæjarráðs sé gott innlegg inn í viðræður um sameiningu sveitarfélaganna til framtíðar segir Líf að hlutverk bæjarstjórnar sé að gera samninga sem eru skýrir fyrir íbúa. „Og íbúarnir okkar líka skilja og það er bara vinnan sem við erum í núna.“ Á fundi bæjarráðs kom einnig fram að það teldi rétt að gera þjónustusamning við Hvalfjarðarsveit um aðgengi að bókasafni Akraness. „Þarna erum við í rauninni bara að segja að samkvæmt þessari nýju nálgun okkar viljum við horfa til raunkostnaðar á rekstri bókasafnsins almennt. Þá gæti slíkur samningur verið settur upp með svipuðum hætti og aðrir samningar sem við höfum gert við sveitarfélagið, þar sem horft er til kostnaðarskiptingu sem byggir á íbúafjölda og tekur tillit til raunkostnaðar við rekstur.“ Hafið þið fengið einhver viðbrögð frá Hvalfjarðarsveit? „Við settum þessa bókun okkar á fundinum og höfum beðið þau um viðbrögð en það er stutt síðan þannig að við gerum okkur alveg grein fyrir því að það tekur tíma fyrir þau að móttaka og fara yfir og koma svo með svar til okkar. Við bara bíðum átekta eftir því.“ Líf segir viðbrögð almennt við þessari nýju nálgun hafa verið jákvæð. Fólk átti sig á því hvers vegna þetta sé mikilvægt og hvers vegna þetta sé gert samhliða breytingum á lögunum. „Auðvitað tekur þetta líka bara mið af því hvað getur talist sanngjarnt þannig að ég hef bara skynjað fínar undirtektir við þetta.“ Mikilvægt sé að Akraneskaupstaður sé í góðri samvinnu við aðra. „Og getum unnið saman þegar svo ber undir en það sé gert með skýrum hætti þar sem það ríkir ákveðið gangsæi þegar kemur að samningagerðinni og að raunkostnaður sé notaður til að meta forsendur og sé undirstaða samningana.“