Formaður Félags íslenskra bifreiðaeigenda segir að olíufélögunum verði veitt aðhald um áramót þegar olíugjald fellur niður. Hann segir það ekki mega verða til þess að þau auki álögur. Bensínverð ætti að lækka um rúmlega 90 krónur. Frumvarp fjármálaráðherra um kílómetragjald var samþykkt á Alþingi í vikunni. Bíleigendur munu framvegis greiða sérstakt gjald fyrir hvern ekinn kílómetra, ekki bara rafmagns- og tengiltvinnbílar, en á móti verður olíugjald fellt niður. Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, hefur reiknað út hversu mikið verðið við bensíndæluna ætti að lækka við breytinguna. „Þar til annað kemur í ljós þá auðvitað höfum við trú á því að félögin muni skila til neytenda sem þau eiga að skila og erum við þá að tala um ríflega 90 krónur á hvern bensínlítra á og einhvers staðar að lágmarki ríflega 80 krónur á hvern í dísellítra,“ segir Runólfur Ólafsson, formaður FÍB. Hann segir að FÍB og Alþýðusamband Íslands muni veita olíufélögunum aðhald. „Og svo hafa stjórnvöld og Samkeppniseftirlitið auðvitað líka verið með í ráðum varðandi það að fylgja því eftir að þetta skili sér til neytenda af því að annars þurfi ekki að ná sama árangri, alla vega miðað við hagspár, af því að við þurfum jú að ná verðlaginu niður,“ segir Runólfur. Ekki ætlunin að hluta skattsins verði skilað til olíufélaganna „Við skulum vona að það verði þarna einhver samkeppnisaugnablik þannig að fákeppnin sjái kannski eitthvað ljós. Við erum farin að heyra reyndar frá einhverjum forvígismönnum olíufélaga að það verði ekki hægt að skila þessu öllu. Hverju þeir byggja það þá veit ég ekki af því að auðvitað er það bara skattur sem almenningur hefur verið að greiða og það er ekki ætlunin að þessum skatti verði áfram skilað að hluta til olíufélaganna. Það var aldrei hugmyndin.“