Það mikilsverðasta að vera ekki einmana

„Ef maður hefur eitthvað til að una sér við, eins og myndlistina, þá leiðist manni ekki. Leiðindi eru svo leiðinleg. En mér hefur aldrei leiðst. Það er svo margt í lífinu sem er gaman að hugsa um og leika sér með,“ segir Sigrún Guðjónsdóttir, alltaf kölluð Rúna. Hún tekur óvænt þátt í jólabókaflóðinu, á tíræðisaldri. Barnabókin Rauði fiskurinn kom fyrst út 1972 og hefur nú verið endurútgefin. Texti og myndir Rúnu segja frá ferðalagi Simba um heimsins höf í leit að sínum líkum. „Hann er soldið einmana, en það gefur tækifæri að hann skuli vera einmana. Þá þarf hann að gera eitthvað í málinu. Það dugar ekki að gefast upp. Svo þá fer hann að leita, að einhverjum til að vera með.“ „Ég álít að eitt það mikilsverðasta í heiminum sé að vera ekki einmana, að eiga vini, fjölskyldu og vini. Það er þetta sem gefur lífinu gildi. Og fallegir hlutir, fegurðin.“ Á löngum og fjölbreyttum ferli hefur myndsköpun Rúnu fundið sér farveg innan leirlistar, bókskreytinga, málverka og hönnunar. Hún hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar í tímans rás, svo sem fálkaorðuna og Íslensku hönnunarverðlaunin. Rúna er fædd í nóvember árið 1926 svo hún verður 100 ára á næsta ári. Hún fluttist nýverið á Hrafnistu í Hafnarfirði. Í jólabókaflóðinu er bók fyrir allra yngstu lesendurna sem kom fyrst út árið 1972 en hefur nú verið endurútgefin. Rauði fiskurinn eftir Rúnu fjallar um að eiga vini og fjölskyldu og það gefur lífinu gildi, að hennar mati. Rætt var við Sigrúnu Guðjónsdóttur í Víðsjá á Rás 1. Viðtalið er í spilaranum hér fyrir ofan.