„Allra hagur að auglýsingaflóran sé sem blómlegust“

Formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa segir líklegt að auglýsingar færist í meira mæli til innlendra miðla verði ný aðgerðaáætlun stjórnvalda, sem ætlað er að tryggja samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla, samþykkt. Með þessu sé ríkisstjórnin að setja hvata inn í kerfið en ekki bara peningastyrki. „Við erum bara mjög ánægð með útkomuna. Þetta samræmist því sem Samband íslenskra auglýsingastofa var búið að leggja fram í minnisblaði til nefndarinnar. Og við erum mjög ánægð með það að fjölmiðlarnir fái hvatningu og innspýtingu, við sjáum einhvern veginn að þetta getur verið annað en gott fyrir alla fjölmiðla,“ segir Anna Kristín Kristjánsdóttir, formaður Sambands íslenskra auglýsingastofa. Tillögurnar sýni vilja stjórnvalda til þess að setja hvata inn í kerfið Ríkisstjórnin kynnti nýja aðgerðaráætlun í gær sem ætlað er að tryggja samkeppnisstöðu íslenskra fjölmiðla. Aðgerðirnar eru 20 talsins og ná til fjölda ráðuneyta. Þar er meðal annars kveðið á um að 12 prósent auglýsingatekna RÚV eigi að renna til einkarekinna fjölmiðla, auk alls auglýsingafjár umfram ákveðið þak. Anna Kristín segir þetta fagnaðarefni. Því fleiri valkostir á auglýsingamarkaði því betra, sem skili sér í meiri gæðum auglýsinga. Hún telur það líklegt að gangi áætlanirnar eftir færist auglýsingar í meira mæli til innlendra miðla. „Fjölmiðlar eru að kalla eftir því að það sé komið til móts við þá. Og það er búið að reyna þetta styrkjakerfi og mér finnst þetta í þá átt. Það er verið að sýna fram á vilja til þess að setja hvata inn í kerfið, ekki bara peningastyrki. Það er allra hagur að auglýsingaflóran sé sem blómlegust og við viljum frekar að auglýsingamarkaðurinn stækki hjá öllum.“