Snorri um stórmót: „Þetta er bara fokking erfitt“

Snorri Steinn Guðjónsson valdi nýverið 18 manna hóp karlalandsliðsins sem fer á Evrópumótið í handbolta í janúar. Hann segir stórmót í handbolta „fokking“ erfið og að liðið einbeiti sér fyrst og fremst að því að vinna riðilinn. Hann sagði valið í ár erfiðara en síðustu ár. Það erfiðasta var að skilja hornamennina Stiven Tobar Valencia og Sigvalda Björn Guðjónsson eftir heima. „Þetta var erfiðara en undanfarin ár. Mér fannst það vera stærri ákvarðanir sem ég þurfti að taka og tók. Svo veltir maður þessu fyrir sér í tíma og ótíma, allt of mikið. Svo kemstu að einhverri niðurstöðu og ert sáttur með hana. Þegar þú ert sáttur með hana þá er þægilegra að standa og falla með henni.“ Viðtal Einars Arnars Jónssonar við Snorra má sjá hér í heild sinni. Snorri Steinn Guðjónsson segir að það sé afar erfitt að ná árangri á stórmóti í handbolta. Ísland hefur þrisvar farið í undanúrslit. Snorri ræddi einnig stöðuna á Þorsteini Leó Gunnarssyni, viðkvæman hópinn og ákvörðunin með hornamennina. Þetta er bara fokking erfitt Ísland hefur einungis þrisvar komist í undanúrslit á stórmóti í handbolta, en það var á EM 2002 og 2010 auk ÓL 2008. Snorri segir það ljóst að það er erfitt að ná árangri á stórmóti í handbolta. Tilfinningin hans er að það vanti aðeins herslumuninn. Liðið ætli hins vegar að setja sér það markmið að vinna riðilinn gegn Póllandi, Ítalíu og Ungverjalandi. Takist það eru liðinu allir vegir færir í milliriðlinum. „Ekkert að því að eiga sér vonir og drauma. Þú þarft ekkert annað en að skoða söguna og þá áttarðu þig á því að þetta er bara fokking erfitt. Þetta er löng leið og þetta hefur ekki gerst oft.“ „En það breytir því ekkert að mér finnst við vera með frábært lið í höndunum. Þetta eru geggjaðir handboltagaurar. Það hefur einhverra hluta vegna vantað herslumun. Eitthvað pínulítið, einhverja örlitla „detaila“ hér og þar.“ „Þegar hefðin fyrir því að fara alla leið í undanúrslit er ekki meiri en hún er, þá held ég að það sé mjög hollt og eðlilegt að einbeita sér bara að færri hlutum í einu.“ „Ég held að við eigum fullt í fangi með að einbeita okkur að riðlinum. Við eigum að gera það. Ég held að það sé bara fínasta markmið. Það er ákveðið lykilatriði upp á framhaldið að gera að vinna riðilinn. Við þurfum að koma okkur í þá aðstöðu að geta farið að dreyma um stærri hluti. Fyrsta skrefið í því er að vinna riðilinn.“ Erfitt og leiðinlegt að skilja þá eftir Snorri valdi Orra Frey Þorkelsson og Bjarka Má Elísson í vinstra hornið í stað Stivens. Stiven fór á fyrsta stórmót Snorra, EM 2024. Þá hefur Sigvaldi verðið fastamaður í liðinu í áraraðir en fer nú ekki með. Þeir Óðinn Þór Ríkharðsson og Teitur Örn Einarsson eru í hægra horninu. „Það er engin spurning að það var það sem var erfiðast, það var bæði erfitt og leiðinlegt að skilja Stiven og Sigvalda eftir. Þetta eru frábærir leikmenn og góðir drengir. Þeir hafa reynst mér og liðinu vel. Það var erfitt en maður er búinn að fara yfir alla hluti, fara yfir leiki og tölfræði aftur í tímann og skoða þá vel í sínum liðum. Svo eru kannski einhverjir taktískir hlutir sem vega þyngra en annað þegar upp er staðið. Það eru hlutir sem ég vildi hafa í hópnum sem voru kannski Bjarka og Teit í hag.“ Gæti tekið 19 með út Skyttan Þorsteinn Leó Gunnarsson var valinn í æfingahóp ásamt markverðinum Einari Baldvin Baldvinssyni. Þorsteinn Leó er meiddur en Snorri vonast til þess að hann geti komið inn í milliriðla ef allt gengur að óskum. Ísland leikur á æfingamóti í Frakklandi áður en liðið heldur til Svíþjóðar á EM. Snorri segir að HSÍ sé reiðubúið að taka 19 leikmenn út í stað hins hefðbundna 18 manna hóps. Þá færi Þorsteinn Leó með í endurhæfingu. „Það er engin spurning að meiðslin á honum settu strik í reikninginn. Hann hefur vaxið mikið og kom vel inn í síðasta verkefni. Það er ekkert leyndarmál að honum var ætlað stórt hlutverk. Meiðslin settu klárlega strik í alls konar pælingar hjá okkur en í dag er hann bara meiddur og við þurfum að bera virðingu fyrir því og meðhöndla hann sem slíkan,“ sagði Snorri. „Það er enn svo margt sem getur gerst. Hver dagur skiptir máli. Þegar þú tognar þá þýðir það að þegar það er stutt í leik getur pínulítið bakslag þýtt það að hann er alls ekki að fara á EM.“ Snorri segir þetta áhættu sem hann er reiðubúinn að taka. „En ég vildi gera þetta svona. Mér fannst mikilvægt að velja aðra 18. Ef út í það fer að Steini er ekki með þá erum við bara með okkar 18 leikmenn sem eru búnir að vera með okkur allan tímann.“ „Ég átti fund með HSÍ um að ef út í það fer þá förum við með 19 gaura til Frakklands og svo til Svíþjóðar. Svo verður þetta stöðugt stöðumat á Steina. En ég held það sé ágætt að ganga út frá því og vona að hann geti orðið leikfær í milliriðlunum.“ Vantar ekki álagið á drengina Snorri ræddi hvernig það er að fylgjast með landsliðsmönnum keppa leik eftir leik, vonandi að þeir meiðist ekki. „Við erum alveg viðkvæmir líka. Það má ekkert gleyma því. Það er nóg eftir hjá okkar allra mikilvægustu mönnum. Ef við horfum á lið eins og Magdeburg, eða bara þýsku liðin, þá vantar ekkert álagið á þessa drengi. Þetta er partur af þessu. Þetta er óþægilegt. En yfirleitt þegar ég á þessum tíma, búinn að velja hópinn, þá tek ég pásu frá handboltanum. Þá kíki ég bara á símann hvort ég sé með missed call frá þeim. Ég sleppi að horfa á þetta og fylgist með úrslitunum. Það er bara partur af þessu og auðvitað vonum við það besta. En ef eitthvað gerist þá bara glímum við við það.“ Væri í lagi fyrir Þjóðverjana að gefa jólafrí Margir í liðinu leika í Þýskalandi. Þrátt fyrir álagið þar á bæ vill Snorri vitaskuld að þeir spili á sem hæstu getustigi. Ellefu af átján leikmönnum í hópnum leika í Þýskalandi. „Ef þú myndir spyrja mig hvar ég myndi vilja að þessir strákar spili þá myndi ég svara þýsku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni. Það er klárlega mín upplifun að þeir sem eru þar eru mest fit og mest tilbúnir í þetta. Þeir eru tilbúnir í álagið sem fylgir stórmótum.“ „Það er svo hin hliðin á þessu, þannig að ég myndi ekkert vilja hafa þá annars staðar. En það væri allt í lagi fyrir Þjóðverjana að gefa þeim smá jólafrí ef ég ætti að breyta einhverju.“ Að lokum ræddi Snorri fjarveru Arons Pálmarssonar.