Guðrún Brá Björgvinsdóttir keppir á LET Evrópumótaröðinni í golfi á næsta ári. Árangur hennar á lokaúrtökumóti fyrir Evrópumótaröðina í Marokkó í dag tryggði henni þátttökurétt. Hún var hársbreidd frá því að tryggja sér fullan keppnisrétt á mótaröðinni en efstu tuttugu konurnar öðluðust hann. Guðrún var í 24. til 29. sæti, tveimur höggum frá topp tuttugu. Árangurinn þýðir þó að hún fær er efst í forgangsröðun fyrir öll mót á mótaröðinni á næsta ári. Hún mun því að öllum líkindum keppa í um 15 af 28 mótum á næsta ári. LET-mótaröðin þykir sú sterkasta í Evrópu. Guðrún fær CAT 16 þátttökurétt. Hvernig gekk í dag? Guðrún lék á einu höggi undir pari í dag, eða 71 höggi. Hringina fjóra fór hún á átta undir pari. Guðrún var jöfn á toppnum eftir fyrsta hring á sjö undir pari. Þrír aðrir íslenskir kylfingar tóku þátt Ragnhildur Kristinsdóttir varð í 66. til 73. sæti á tveimur höggum undir pari samtals. Andrea Bergsdóttir varð í 127. til 130. sæti á sjö höggum yfir pari samtals. Hulda Clara Gestsdóttir varð í 150. til 152. sæti á fimmtán höggum yfir pari samtals.