Ferðamenn þurfa senn að greiða fyrir að heimsækja Trevi-brunninn

Ferðamenn í Róm þurfa brátt að greiða fyrir að heimsækja hinn víðfræga Trevi-gosbrunn og fimm aðra fjölsótta ferðamannastaði í ítölsku höfuðborginni. Roberto Gualtieri borgarstjóri Rómar tilkynnti um þetta fyrir helgi. Borgarbúar fá áfram að njóta þeirra að kostnaðarlausu. Miðaverð fyrir ferðamenn að Trevi-brunninum verður tvær evrur en fimm evrur á hinum stöðunum. Þeir eru Villa de Massenzio, ævafornt keirarasetur, auk fjögurra vinsælla safna. Þetta jafngildir tæplega 300 íslenskum krónum í aðgangseyri við Trevi-brunn og um 740 krónum á hinum stöðunum, miðað við núverandi gengi. Samfélagslegt réttlæti fyrir Rómverja Yfirvöld í Róm segja innleiðing aðgangseyris vera samfélagslegt réttlætismál þar sem markmiðið sé að tryggja heimamönnum greiðara aðgengi að eigin sögu og menningu.. Milljónir manna heimsækja þessa staði ár hvert. Áætlað er að aðgangseyrir skili borginni 6,5 milljónum evra ár hvert – rúmlega 962 milljónum íslenskra króna – og verður hluta hans varið til þess að tryggja aðgengi borgarbúa að kennileitunum. Borgaryfirvöld hafa undanfarið ráðist í aðgerðir til að takmarka fólksfjölda við söguleg kennileiti. Í fyrra innleiddu þau fjöldatakmörkun við Trevi-brunninn og mátti fjöldi gesta hverju sinni ekki fara yfir 400. Gestir hins fræga Pantheon, eða Algyðishofs, hafa þurft að greiða miðaverð frá 2023 og segja yfirvöld það hafa reynst vel. Yfirvöld í Feneyjum innleiddu aðgangseyri fyrir ferðamenn á háannatíma í fyrra. Frá og með 1. febrúar verður fólki sem vill nálgast Trevi-brunninn skipt í tvær raðir, ferðamenn og heimamenn, þar sem þeir fyrrnefndu þurfa að eiga miða. Þetta á aðeins við um svæðið næst brunninum og geta þeir því áfram dáðst að brunninum úr fjarlægð að kostnaðarlausu.