Setja saman viðbragðsteymi vegna yfirfullrar bráðamóttöku

Heilbrigðisráðherra segir vistun sjúklinga í bílakjallara örþrifaráð sem eigi ekki að þurfa að grípa til. Unnið sé að því að setja á laggirnar viðbragðsteymi ef bráðamóttaka Landspítala verður yfirfull. Ástæðan hægagangur í uppbyggingu nýs Landspítala og úrræða fyrir aldraða Starfsfólk Landspítalans þurfti síðustu helgi að grípa til þess ráðs að vista sjúklinga í bílageymslu við bráðamóttöku Landspítalans í Fossvogi vegna plássleysis. Níu sjúklingar lögðust þar inn en búið var að flytja þá alla inn á deildir rúmlega hálfum sólarhring síðar. Rafn Benediktsson, framkvæmdastjóri á Landspítalanum sagði í samtali við fréttastofu að staðan væri óboðleg og kallaði eftir aðgerðum stjórnvalda. Verið væri að brjóta persónuvernd og sótt- og brunavarnir alla daga vegna plássleysis. Alma Möller, heilbrigðisráðherra, segir miður að heilbrigðisstarfsfólk hafi þurft að grípa til þessa örþrifaráðs. Staðan sé tilkomin vegna hægagangs í uppbyggingu úrræða fyrir aldraða. „Þannig á hverjum tíma eru alltof margir einstaklingar innan Landspítala sem ættu ekki að vera þar og taka upp pláss, fyrir utan að það eru afleit lífsgæði fyrir hina öldruðu. Og þetta er líka afleiðing af því að við erum alltof sein að byggja nýjan Landspítala.“ Inflúensufaraldur og nóróveira herji á landsmenn og því hafi verið gripið til þess ráðs að útbúa legurými í bílageymslu til að einangra sjúklinga. Viðbragðsteymi til taks skyldi þessi staða koma upp aftur Samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum hefur bráðamóttakan verið yfirfull síðustu daga, en ekki hefur þurft að vista sjúklinga í bílageymslu. „En auðvitað á þetta ekki að koma fyrir og við erum með margt í skoðun því nú eru hátíðir fram undan. Við erum að mynda viðbragðstreymi sem getur gripið inn ef svona gerist aftur og það er skipað meðal annars fulltrúum frá kragasjúkrahúsunum,“ segir Alma, og bætir við: „Það vinnur með okkur að það er verið að opna nýtt hjúkrunarheimili á Nesvöllum og síðan er Landspítali með til skoðunar hvernig brugðist er við innan spítalans.“