Ógn steðjar að þjóðveginum vegna verulegs sjógangs

Einar Freyr Elínarson, sveitarstjóri Mýrdalshrepps, segir þjóðveginum og innviðum sveitarfélagsins stafa veruleg ógn af miklum sjógangi við Vík í Mýrdal. Verði ekki brugðist við haldi landrof áfram og fjara færist nær þjóðveginum. Mikill sjógangur var við Vík í Mýrdal á fimmtudag með þeim afleiðingum að stórt lón myndaðist við þjóðveginn og flæddi yfir hann. Einar segir að þetta eigi eftir að versna ef ekki verði brugðist við með því að reisa sjóvarnir austan við Vík. Hann segir veruleg vonbrigði að ekki hafi verið gert ráð fyrir úrbótum í nýrri samgönguáætlun. „Við vorum búin og höfum margoft rætt þetta við innviðaráðuneytið, Vegagerðina og þingmenn á Suðurlandi og það er auðvitað þannig að það eldast afskaplega illa yfirlýsingar Vegagerðarinnar og Innviðaráðuneytisins um að þjóðveginum stafi ekki hætta af sjávarflóðum, vegna þess að það er nú bara raunin,“ segir Einar. Talað fyrir úrbótum í sex ár Þetta sé viðvarandi landrof verði ekki brugðist við með því að útbúa svokallaða sandfangara, sem gert hafi verið með góðum árangri á öðrum stöðum í Vík. „Við erum búin að tala fyrir þessu í sex ár, tala fyrir daufum eyrum, en maður getur bara vonað að stjórnvöld vakni nú loksins til lífsins með þetta og opni augun fyrir hættunni sem steðjar að því að þetta hefur ekki bara áhrif á Vík, þetta hefur áhrif á Suðausturland og Austurland því þetta er auðvitað aðal samgönguæð landsins.“