Það þarf ofsaveður til að heimilislausir á höfuðborgarsvæðinu geti leitað skjóls á öllum tímum dags eftir að þjónusta skertist vegna húsnæðisvanda. Rauði krossinn segir áhrifin geta orðið margvísleg. Undanfarin ár hefur kaffistofa Samhjálpar verið opin heimilislausum á milli klukkan tvö og fimm á daginn yfir vetrarmánuðina, frá nóvemberbyrjun til loka mars, en á þeim tíma eru gistiskýli og næturathvörf í Reykjavík lokuð og fólk á í fá hús að venda á þeim tíma dags. Þetta var á grundvelli samnings Samhjálpar og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu, en enginn slíkur var gerður í ár, segir Guðrún Ágústa Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Samhjálpar. Hvergi velkomin og eru úti á götu „Því miður höfum við ekki getað samið um lengri opnun við höfuðborgarsvæðið þennan veturinn,“ segir Guðrún. Samhjálp er nú í bráðabirgðahúsnæði í Fíladelfíukirkjunni og þar er ekki hægt að bjóða upp á lengri opnun. Þrátt fyrir ítrekaða fundi með sveitarfélögunum á höfuðborgarsvæðinu hefur ekki fundist lausn. „Ég held að það þýði að það sé í rauninni enginn staður sem er opinn.“ segir Guðrún. Afleiðingarnar koma ekki síst fram hjá skjólstæðingum Ylju, neyslurýmis Rauða krossins, en um 80% þeirra dvelja í gistiskýlum segir Svala Dís Sigurðardóttir verkefnastjóri hjá Ylju. „Þau eru hvergi velkomin og eru úti á götum,“ segir Svala. „Við erum að fá til okkar skjólstæðinga sem eru bæði blautir og kaldir, þeir vita ekki hvað þeir eiga að gera eða hvert þeir eiga að fara og treysta sér ekki út vegna kulda.“ Neyðaropnun miðast við 10 gráðu frost Þegar veðurviðvaranir eru í gildi eða frost fer niður fyrir 10 gráður er svokölluð neyðaropnun í gistiskýlunum. „Það þarf ansi mikinn kulda og ansi vont veður til að það sé gert,“ segir Guðrún. „Við teljum þetta vera grundvallarmannréttindi. Okkur finnst það vera mjög alvarlegt að hópurinn sem hefur það hvað verst eða býr ekki við hlýju þurfi að vera úti þrjá tíma á dag sama hvernig viðrar. Nema það komi ofsaveður,“ segir Svala Dís. Spurð hvaða áhrif hún telji að það hafi að ekki verði boðið upp á þessa lengri opnun í vegur segist Guðrún telja að þær gætu verið slæmar. „Ég held að það geti haft mjög erfiðar og vondar afleiðingar. Þetta þýðir að fólk þarf að leita í skjól einhvers staðar.“ Svala tekur í sama streng. „Það hefur mjög alvarlegar afleiðingar, við óttumst um heilsu einstaklinga - álag á bráðamóttöku - það fer væntanlega stór bolti í gang.“ Spurð um ábyrgðina svarar Guðrún: „Ég held að það séu sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sem þurfa að svara fyrir það.“