Ísraelski veffréttamiðillinn The Times of Israel fjallaði um stöðu gyðinga á Íslandi í grein sem birt var á sunnudag . Í greininni er rætt við íslenska gyðinga sem sumir sögðust finna fyrir minna umburðarlyndi en áður hjá Íslendingum vegna orðræðunnar í tengslum við stríðið á Gaza. „Þetta hefur breyst mikið fyrir mig frá 7. október,“ sagði bandarískur gyðingur með búsetu á Íslandi við vefmiðilinn undir nafnleynd. „Áður fyrr var ég fremur opinn um að vera gyðingur, en landslagið hefur breyst. [...] Í fyrsta sinn fann ég fyrir áhyggjum yfir því að setja menóruna [kertastjaka í helgiathöfnum gyðingdóms] út í glugga á Hanúkkah.“ Greinin segir íslenska gyðinga á táningsaldri hafa greint frá æ spennuþrungnari samskiptum við jafnaldra sína vegna umræðunnar. Annar af viðmælendum Times of Israel , sem einnig veitti viðtal undir nafnleynd, sagðist fremur telja gyðingaandúð á Íslandi stafa af misskilningi heldur en skýru hatri. „Margir Íslendingar hafa ekki hugmynd um að það eru bara um 15 milljónir gyðinga í heiminum og að þótt við séum fá erum við ekki einsleit. Við höfum ýmsar leiðir til að tengjast gyðinglegri sjálfsmynd okkar sem tengjast ekki bara trúarbrögðum, heldur menningu og sameiginlegum menningararfi.“ Í greininni er bent á að töluverður lögregluviðbúnaður hafi verið við tendrun menórunnar á Laugavegi á vígsluhátíðinni Hanúkkah 14. desember, sem sé óvenjulegt á Íslandi. Athöfnin, þar sem töluverður hluti gyðingasamfélagsins á Íslandi var saman kominn, fór fram fáum klukkustundum eftir að 15 manns voru myrt í hryðjuverkaárás á hátíðahöld gyðinga í Bondi í Ástralíu. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu sagði aðbúnaðinn þó ekki hafa verið vegna árásarinnar. Samkvæmt greininni fundu sumir viðstaddra fyrir stuðningi af því að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir utanríkisráðherra skuli hafa sótt helgiathöfnina, einkum í ljósi gagnrýni íslenskra stjórnvalda á Ísrael í stríðinu á Gaza.