Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti einróma ályktun á föstudaginn þar sem Rúanda var fordæmt fyrir að styðja sókn uppreisnarhópa í austurhluta Lýðstjórnarlýðveldisins Kongó. Í ályktuninni voru Rúandamenn hvattir til að draga burt liðsafla sinn og hætta að styðja M23-uppreisnarhreyfinguna í Kongó. Rúanda hafnar því opinberlega að landið styðji hreyfinguna. Öryggisráðið samþykkti einnig framlengingu á umboði Sendinefndar Sameinuðu þjóðanna í þágu stöðugleika í Lýðstjórnarlýðveldinu Kongó (MONUSCO), sem sinnir friðargæslu í landinu. Í ályktuninni var þess einnig krafist að Kongómenn hættu að styðja Lýðræðissveitirnar til frelsunar Rúanda (FDLR) og stæðu við skuldbindingar sínar um að uppræta hópinn. FDLR er vopnuð hreyfing Hútúa sem tók þátt í þjóðarmorðinu í Rúanda á tíunda áratugnum. Rúandamenn hafa jafnan vísað til starfsemi hópsins í austurhluta Kongó sem ástæðu fyrir íhlutunum sínum í landinu, þegar þeir gangast við þeim á annað borð. Ályktun öryggisráðsins var samþykkt nokkrum dögum eftir að M23-hreyfingin lagði undir sig borgina Uvira í Suður-Kivu. Hreyfingin hefur haldið áfram sókn sinni þrátt fyrir friðarsamkomulag milli Kongó og Rúanda sem undirritað var í Hvíta húsinu í Washington 4. desember síðastliðinn. Hreyfingin lýsti því yfir á miðvikudag að hún myndi draga sig frá Uvira vegna harðrar gagnrýni alþjóðasamfélagsins en ríkisstjórn Kongó hefur sakað hreyfinguna um að ljúga um brotthvarf sitt frá borginni. Marco Rubio utanríkisráðherra Bandaríkjanna viðurkenndi á föstudag að ekki væri verið að standa við alla skilmála friðarsamningsins. Hann sagði Bandaríkjastjórn hins vegar ætla að tryggja að samningsaðilarnir virtu samkomulagið.