Afríkukeppni karla í fótbolta hefst í kvöld. Þetta er stærsta mótið til þessa en hins vegar er sú staða uppi að enginn sýningaraðili er með réttinn á mótinu hér á landi. Mótið er haldið í Marokkó í þetta sinn og gestgjafarnir leika upphafsleik mótsins í kvöld gegn Kómórós klukkan 19:00. En hvaða þjóðir eru sigurstranglegastar? Hvaða stjörnur verða á svæðinu? Og hvaða leikmenn munu skjótast fram á sjónarsviðið? Aldrei stærra? Það má færa rök fyrir því að Afríkumótið hafi aldrei verið stærra. Áhorfstölur hafa hækkað mót frá móti og er nú talið að það sé eitt það stærsta, á eftir Heimsmeistaramóti og Evrópumóti karla. Copa America, svæðiskeppni Suður-Ameríku, og AFCON eru talin svipuð þegar kemur að áhorfstölum. Afríska knattspyrnusambandið hefur gefið út að 2 milljarðar manna hafi fylgst með Afríkumótinu 2023. Skipuleggjendur telja að það mótið muni fara yfir þá tölu í ár. Þá búast skipuleggjendur í Marokkó við að yfir ein milljón manns mæti á leikina og markmiðið er að setja nýtt met. Metið er 1.1 milljón frá mótinu 2023 í Fílabeinss Keppnin hefur aldrei verið jafnari þar sem áður lakari þjóðir líkt og Súdan og Úganda geta valdið usla í riðlakeppni. Afríkumótið hafði á árum áður orðspor á sér fyrir að bjóða upp á stirðan fótbolta en það heyrir sögunni til. Á mótinu 2024 voru 2,47 mörk að meðaltali í leik, sem er það hæsta í 15 ár. Svona eru riðlarnir Hópur A Marokkó Malí Sambía Komóróseyjar Hópur B Egyptaland Suður‑Afríka Angóla Simbabve Hópur C Nígería Túnis Úganda Tansanía Hópur D Senegal Lýðstjórnarlýðveldið Kóngó Benín Botsvana Hópur E Alsír Búrkína Fasó Miðbaugs‑Gínea Súdan Hópur F Fílabeinsströndin Kamerún Gabon Mósambík Hvaða lið eru sigurstranglegust? Það er erfitt að líta fram hjá heimamönnum í Marokkó. Fótboltinn þar í landi hefur verið í miklum uppgangi og yfirvöld hafa dælt peningum í yfirbyggingu. Það virðist vera að skila sér auk þess sem leikmenn víðs vegar að frá Evrópu hafa kosið að leika með liðinu. Marokkó fór alla leið í undanúrslit á HM 2023 en hefur ekki átt góðu gengi að fagna á síðustu Afríkumótum. Liðið vann mótið síðast 1976 og fór í úrslit árið 2004. Síðan þá hefur Afríkumótið verið þrautarganga. Liðið er þó ógnarsterkt með Achraf Hakimi, Brahim Diaz og Youssef En-Nesyri innanborðs. Þá verður afar áhugavert að fylgjast með framgangi Bilal El Khannous. Þessi 21 árs gamli leikni miðjumaður hefur leikið afar vel með Stuttgart á láni frá Leicester og gæti sprungið út á mótinu. Hvað gera Fílbeinsstrendingar? Fílabeinsströndin er ríkjandi meistari eftir hreint út sagt ótrúlega leið í úrslitin árið 2024 á heimavelli. Liðið rak þjálfarann á miðju móti en réð hann aftur. Liðið átti níu líf á mótinu og jafnaði iðulega á ögurstundu. Liðið er talið til alls líklegt í ár en athygli vekur að Nicolas Pepe var ekki valinn. Wilfried Zaha hefur leikið vel með Charlotte í Bandaríkjunum og er með. Þá er Amad Diallo, leikmaður Manchester United, í hópnum en hann varð byrjunarliðsmaður hjá liðinu í fyrsta sinn á þessu ári. Þetta er þó lið þeirra Franck Kessie og Sebastien Haller. Það er ljóst að mikið mun mæða á tvíeykinu. Yan Diomandé, 19 ára kantmaður RB Leipzig, gæti sprungið út á mótinu. Senegalar sigurstranglegir Það kann að koma einhverjum á óvart að Ganverjar séu ekki með. En liðið verður þó á HM næsta sumar, eins einkennilega og það hljómar. Það eru þó nokkur lið sem gera sterkt tilkall til verðlauna á mótinu. Lið Senegal hefur spilað lengi saman og er fullt af stjörnum. Þar bera að nefna menn eins og Sadio Mane, Kalidou Koulibaly, Edouard Mendy, Nicolas Jackson og þá Pape Matar og Ismaila Sarr. Liðið er afar líklegt til að fara í úrslit hið minnsta. Senegal vann Afríkumótið 2021 eftir vítaspyrnukeppni gegn Egyptum. Lamine Camara, tvítugur miðjumaður Mónakó, er einn þeirra sem vert er að fylgjast með á mótinu. Önnur líkleg lið: Alsír Nígería Malí Túnis Óvænta liðið? Fótboltaheimurinn hefur ekki veitt Suður-Afríku mikla athygli frá því að þeir voru heimaþjóðin á HM 2010. Suður-Afríka gæti náð langt, öllum að óvörum. Liðið verður með á HM 2026 eftir að hafa toppað undankeppnisriðil með Nígeríu. Það sem er einstakt við suðurafríska liðið er að það er nær eingöngu skipað leikmönnum sem leika í heimalandinu. Meirihluti liðsins kemur úr röðum Orlando Pirates. Mögulega hjálpar það liðinu að þekkja hvorn annan inn og út, hvort sem það er sem liðsfélagar eða andstæðingar. Lyle Foster, framherji Burnley, er þeirra helsta stjarna en markvörðurinn Ronwen Williams þarf að eiga afbragðs mót ef Suður-Afríka ætlar sér langt. Þá þykir miðvörðurinn ungi Mbekezeli Mbokazi mikið efni. Hann er nýfarinn frá Orlando Pirates yfir til Chicago Fire. Íþróttaljósmynd ársins? Ronwen Williams, markvörður Suður-Afríku, sést hér sparka frá marki sínu í leik Mamelodi Sundowns og Pyramids FC í úrslitaleik Meistaradeildar Afríku. Pyramids höfðu betur en þetta gæti verið íþróttaljósmynd ársins. Skuldar Salah? Egyptaland er sigursælasta þjóð Afríkumótsins en Mohamed Salah leitar enn að sínum fyrsta titli. Hann hefur mátt þola tap í úrslitaleikjum 2017 og 2022. Hann er orðinn 33 ára og glugginn hans gæti verið að lokast. Næsta mót verður 2028 og eftir það verður það á fjögurra ára fresti. Hossam Hassan, Mohamed Aboutrika og Essam El-Hadary eru allir goðsagnir í Egyptalandi með fjölda Afríkumótstitla. Það má líkja stöðu Salah í heimalandinu við stöðu Messi í Argentínu, áður en Argentína vann HM. Salah hefur unnið allt sem hægt er að vinna með Liverpool en á eftir að ná í Afríkumótstitilinn. Er hann bara einn í liði? Liðsfélagar Salah leika að mestu í heimalandinu en hann og Omar Marmoush í Manchester City bera sóknarleikinn á herðum sínum. Þeir og framherjinn Mosta Mohamed, sem leikur með Nantes í Frakklandi, eru þeir einu sem leika í Evrópu. 19 af 26 leikmönnum í hópnum leika í Egyptalandi. Miðjumaðurinn Ahmed Sayed Sizo er afar traustur og þykir í raun mikilvægari landsliðinu en Marmoush. Hvernig komust Kómóróseyjar á mótið? Það kann að koma einhverjum á óvart að eyríkið Kómórós sé með á mótinu. Liðið er hins vegar ekkert slor. Flestir liðsmenn leik í Frakklandi enda Kómórós fyrrum nýlenda Frakka. Liðið tapaði ekki leik í undankeppni í riðli með Túnís, Gambíu og Madagaskar. Eyjan er mitt á milli Madagascar og meginlands Afríku og þar búa 883,000 manns. Liðið komst fyrst á Afríkumótið 2021 og fór þá alla leið í 16-liða úrslit. Riðillinn mætti alveg vera auðveldari í þetta sinn en auk Marokkó eru þeir með Malí og Sambíu í riðli. Mikið mun mæða á Youssouf M'Changama sem er þeirra reynslumesti maður á miðjusvæðinu. Hann er 34 ára og á 67 landsleiki og 13 mörk. Liðið er byggt upp af reynslumiklum gömlu kempum líkt og M'Changama og El Fardou Ben Nabouhane í framlínunni. Í bland eru svo yngri og reynsluminni menn sem sumir hverjir leika í neðri deildum í Frakklandi. Allt klárt fyrir fyrsta leik Mótið hefst í kvöld og stendur yfir til 16. janúar. Áhorfendur streyma nú í að Prince Moulay Abdellah vellinum sem tekur tæplega 70.000 manns. Marokkó og Kómóróseyjar leika þar fyrsta leik mótsins klukkan 19:00 að íslenskum tíma. Síðustu ár hefur mótið verið í janúar og febrúar. Mótið í ár átti að vera að sumri til en var fært vegna HM félagsliða síðastliðið sumar. Vinkillinn er greinaflokkur þar sem leitast er eftir að segja áhugaverðar íþróttasögur frá hinum ýmsu sjónarhornum.