Meirihluti vill banna blóðmerahald

Formaður Dýraverndarsamtaka Íslands skorar á stjórnvöld koma banninu á. Ríflega helmingur aðspurðra eða 52% er hlynnt því að banna blóðmerahald hér á landi samkvæmt könnun sem Maskína gerði fyrir Dýraverndarsamband Íslands og Samtök um dýravelferð. 33% eru andvíg og 15% hlutlaus. Konur eru hlynntari því að banna blóðmerahald en karlar og andstaðan mælist mest á höfuðborgarsvæðinu. Minnsta andstaðan við blóðmerahald er á Austurlandi. Linda Karen Gunnarsdóttir er formaður Dýraverndarsamtaka Íslands. Hún segir að meðferðin á fylfullum hryssum sé ekki í samræmi við dýravelferðarlög. „Vegna þess að dýrin eru svo lítið tamin. Þau eru ekki vön meðhöndlun mannsins og verða náttúrlega logandi hrædd á blóðtökubásunum.“ Auk þess sé blóðmagnið sem tekið er úr hryssunum með viku, millibili yfir tveggja mánaða skeið, ekki í samræmi við alþjóðlegar reglur. „Og það er náttúrlega ljóst að þegar það er ekki hægt að tryggja mannúðlega meðferð á dýrum í starfsemi þá er bara eðlilegt að afleggja þá starfsemi.“ Ísteka vinnur verðmætt hormón úr hryssublóðinu sem notað er til að stilla gangmál svína og auka frjósemi þeirra. Fyrirtækið vill sækja um starfsleyfi á grundvelli reglugerðar um landbúnað og lætur nú reyna á það fyrir dómstólum. Linda Karen segir að árið 2020 hafi MAST ákveðið að skilgreina þetta þannig að þessi starfsemi væri landbúnaður og að þetta væri ekki í vísindaskyni, sem komi mjög á óvart og sé í raun mjög alvarlegt. „Af því að það er skýrt í dýravelferðarlögum að ef að þú notar dýr til að framleiða lyf þá er það í vísindaskyni og þá er það leyfisskylt. Þetta kemur mjög á óvart. Það á að hlífa dýrum við því að vera notuð í vísindaskyni og það eru þegar til kemísk lyf og það eru til aðrar aðferðir í búfjárrækt. Þannig að í rauninni þarf ekki að taka blóð úr íslenskum hryssum til að vinna PMSG til að gefa síðan dýrum í verksmiðjubúskap erlendis,“ segir Linda Karen. Hún bendir á að fyrir síðustu kosningar hafi allir ríkisstjórnarflokkarnir sagst hlynntir því að banna blóðmerahald. „Og það er ljóst samkvæmt könnuninni að það er afgerandi stuðningur við bann hjá kjósendum þeirra. Þannig að við skorum bara eindregið á stjórnvöld að taka þetta skref og banna blóðmerahald á Íslandi.“