Stjórnvöld í Nígeríu segjast hafa frelsað 130 skólabörn sem rænt var úr kaþólskum skóla í Níger-fylki í nóvember. Hundrað börn sem var rænt úr sama skóla voru frelsuð fyrr í desember og þar með hafa öll börnin sem voru numin á brott verið leyst úr haldi. „Öðrum 130 nemendum sem rænt var í Níger-fylki sleppt, engin eru eftir í haldi,“ skrifaði Sunday Dare, talsmaður Bola Tinubu forseta, í færslu á samfélagsmiðlinum X (áður Twitter). Færslunni fylgdi ljósmynd af brosandi börnum. Another 130 Abducted Niger State Pupils Released, None Left In Captivity. pic.twitter.com/rnJty2uSHS — Sunday Dare,CON (@SundayDareSD) December 21, 2025 Samkvæmt Sameinuðu þjóðunum verður farið með börnin til Minna, höfuðborgar Níger-fylkis, á þriðjudaginn. Börnunum var rænt í nóvember frá kaþólskum heimavistarskóla í Níger-fylki. Samtökum kristinna Nígeríumanna (CAN) taldist svo til að 315 nemendum og skólastarfsmönnum hafi verið rænt. Fimmtíu þeirra sluppu úr haldi stuttu síðar og nígerísk stjórnvöld frelsuðu um 100 til viðbótar 7. desember. Ekki liggur fyrir hverjir rændu börnunum eða hvernig stjórnvöld fengu þau leyst úr haldi. Algengt er að glæpa- og hryðjuverkahópar í Nígeríu ræni fólki og haldi þeim gegn lausnargjaldi. Strangt til tekið mega nígerísk stjórnvöld ekki greiða lausnargjald samkvæmt lögum en algengt er að það sé samt gert. Bayo Onanuga, annar talsmaður forsetans, sagði börnin hafa verið frelsuð eftir „aðgerð herleyniþjónustu“.