Efnt til söfnunar vegna slyssins í Suður-Afríku

Söfnun hefur verið hleypt af stokkunum til að hjálpa aðstandendum stúlku sem lést í bílslysi í Suður-Afríku á miðvikudaginn. Greint var frá því á sunnudag að tveir Íslendingar, unglingsstúlka og kona á sjötugsaldri, hefðu látist í slysinu og einn til viðbótar slasast alvarlega. Íslendingarnir voru staddir í landinu til að vitja íslensks drengs sem er þar í fíknimeðferð. Ingibjörg Einarsdóttir, vinkona Maríu Sifjar Ericsdóttur, sem missti dóttur sína í slysinu, stendur fyrir söfnuninni. „María fór til Suður-Afríku á föstudag með fjölskyldu sinni til að færa syninum þessar hræðilegu fréttir og sækja látna dóttur sína,“ skrifar Ingibjörg í færslu á Facebook-síðu sinni . „Faðir drengsins liggur enn þungt haldinn á spítala og þarf líklega langa endurhæfingu lifi hann af. Amma drengsins lést einnig í slysinu og hana þarf líka að flytja heim.“ „ Það síðasta sem hún þarf á að halda núna er að hafa fjárhagsáhyggjur, bæði vegna kostnaðar við áframhaldandi meðferð fyrir drenginn og kostnaðar sem fellur á hana vegna þessa óbærilega harmleiks,“ skrifar hún. „Ég vil biðla til allra sem geta að leggja hönd á plóg, hvort sem það er stórt eða smátt. Samtakamáttur skilar miklu og margt smátt gerir eitt stórt.“