Bandaríska dómsmálaráðuneytið þvertók fyrir það á sunnudaginn að gögn um mál barnaníðingsins Jeffrey Epstein, sem stjórnvöld hófu að birta á föstudaginn, hefðu verið ritskoðuð til að vernda Donald Trump Bandaríkjaforseta. Bandaríkjaþing samþykkti og Trump undirritaði lög um birtingu allra Epstein-skjalanna innan 30 daga í nóvember. Dómsmálaráðuneytið birti hins vegar aðeins hluta skjalanna þegar fresturinn rann út á föstudag og mikill hluti þeirra hafði verið ritskoðaður. Strikað hefur verið yfir blaðsíður sumra gagnanna í heild sinni. Demókratar á þingi hafa gagnrýnt að gögnin hafi ekki verið birt í heild sinni innan lögbundins frests og að strikað hafi verið yfir svo mikinn hluta gagnanna sem voru birt. Að minnsta kosti ein ljósmynd sem tengist Trump var fjarlægð úr gögnunum á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins eftir að þau voru gerð opinber. Myndin er af skrifborði á heimili Epsteins með innrömmuðum myndum og opinni skúffu með öðrum ljósmyndum. Trump sést á tveimur ljósmyndum í skúffunni, annars vegar á áður birtri mynd í fylgd með Melaniu eiginkonu sinni, Epstein og samverkakonu hans, Ghislaine Maxwell, og hins vegar á mynd í fylgd með hópi ónafngreindra kvenna. Ljósmyndin var aftur sett inn í gögnin á vefsíðu dómsmálaráðuneytisins eftir harða gagnrýni á að hún hefði verið fjarlægð. Dómsmálaráðuneytið hafnaði því á sunnudag að myndin hefði verið fjarlægð vegna þess að Trump væri á henni og sagði hana hafa verið fjarlægða um stundarsakir til að vernda þolendur Epsteins. Hún hafi aftur verið sett inn um leið og ljóst var að engir þolendur sæjust á myndinni. „Tugir ljósmynda af Trump forseta með hr. Epstein hafa þegar komið fyrir augu almennings,“ sagði Todd Blanche aðstoðardómsmálaráðherra Bandaríkjanna við NBC News. „Þannig að sú fjarstæða að við myndum taka niður ljósmynd, eina ljósmynd, af því að Trump forseti er á henni, er hlægileg.“