Segir fundi með Rússum og Úkraínumönnum uppbyggilega

Steve Witkoff, sendifulltrúi Donalds Trump Bandaríkjaforseta í málefnum Úkraínu, sagði fund sinn með úkraínskum og evrópskum erindrekum í Flórída um lok stríðsins í Úkraínu hafa verið uppbyggilegan. „Sameiginlegt forgangsatriði okkar er að stöðva drápin, tryggja öryggi og skapa aðstæður fyrir bata, stöðugleika og langtímavelmegun Úkraínu,“ sagði Witkoff á samfélagsmiðlum. „Friður verður ekki aðeins að fela í sér stöðvun átaka, heldur einnig grundvöll með reisn fyrir stöðugri framtíð.“ Witkoff fundaði fyrst með Kíríll Dmítríjev, sendifulltrúa Vladímírs Pútín Rússlandsforseta, á laugardag og síðan með úkraínskum og evrópskum embættismönnum á sunnudag. Hann fundaði síðan með úkraínsku sendinefndinni, sem leidd er af Rústem Úmerov fyrrum varnarmálaráðherra. Witkoff kallaði fund sinn með Dmítríjev einnig uppbyggilegan. „Rússland er enn staðráðið í að ná fram friði í Úkraínu. Rússland metur mikils viðleitni og stuðning Bandaríkjanna við að leysa úr úkraínsku deilunni og koma aftur á alþjóðlegu öryggi.“ Úmerov tók í svipaðan streng og Witkoff í færslum sínum um fundinn á samfélagsmiðlinum Telegram. Hann sagði fundinn hafa verið uppbyggilegan en minntist ekki á fund Witkoffs með rússnesku sendinefndinni. Júríj Úshakov, ráðgjafi Pútíns í utanríkismálum, sagðist á sunnudag ekki búast við því að ríkisstjórn Rússlands myndi sætta sig við neinar tillögur um frið sem Úkraínumenn eða evrópskir bandamenn þeirra lögðu fram í viðræðunum í Flórída. „Við ræðum þetta allt hérna og sjáum hvað er hægt að fallast á og hvað er alls ekki hægt að fallast á. Ég tel hreint ekki að flestar tillögurnar muni henta okkur, því við ætlum að fylgja því sem samið var um í Anchorage og á öðrum fundum með fulltrúum Bandaríkjanna.“