Það þekkja fáir betur íþróttaumhverfið í Noregi samanborið við hið íslenska en Aron Gauti Laxdal. Aron Gauti er dósent í íþróttafræði við háskólann í Agder í Noregi og stendur nú að verkefni þar sem hann rannsakar færasta íþróttafólk landsins. Aron vinnur einnig að verkefnum við Háskólann í Reykjavík. Norðmenn hafa haslað sér mun stærri völl í íþróttaheiminum en þeir ættu að geta miðað við sínar 5,5 milljónir manna. Nýjasta rannsókn Arons miðar að því að reyna að skilja hvað það er sem gerir þetta íþróttafólk afburða í sinni grein. Hann byrjaði á Katrine Lunde sem hefur verið besti handboltamarkvörður heims í afar langan tíma. „Við settumst með henni og fórum í gegnum allan hennar feril. Hvernig hún í rauninni varð að þeim leikmanni sem hún er í dag.“ Aron fer yfir eitt og annað í viðtalinu: Hvað er það sem gerir Lunde einstaka? Ímyndunarafl og einstakur persónuleiki „Ómögulegi“ draumurinn um að halda hreinu í handbolta Af hverju leggur Noregur svona mikla vigt í íþróttir? Hvað er það sem Ísland gæti lært af Noregi í þessum málum? Hvað eru Íslendingar að gera vel í íþróttamálum? Hluta af viðtalinu við Aron má sjá hér að neðan. Aron Gauti Laxdal, dósent í íþróttafræði, stendur að verkefni þar sem hann rannsakar færasta íþróttafólk Noregs. Hann byrjaði á Katrine Lunde, sem hefur í áraraðir verið besti handboltamarkvörður heims. En hvað er það sem Norðmenn eru að gera rétt? Ranghugmynd að Noregur setji mestan pening í íþróttir Norðmenn virðast reiðubúnir að setja mikinn kraft í íþróttaumhverfið. Olympiatoppen er afreksmiðstöð og stoðkerfi sem styður fremsta íþróttafólk landsins. Af hverju gera þeir þetta? Hvað er það sem gera rétt? „Íþróttir eru partur af þjóðarsálinni í Noregi og hafa alltaf verið. Vetrarólympíuleikarnir 1994 voru stór atburður í sögu Noregs. Mjög mikið gerðist í kjölfarið af því. Olympiatoppen, sem margir á Íslandi hafa heyrt aðeins af, byrjaði í kjölfarið af því. „En þetta er ekki þannig að Norðmenn séu að setja miklu meiri peninga í íþróttir en margir aðrir, sko. Það er ranghugmyndin sem sumir hafa. Því að Þjóðverjar, Bretar og aðrar þjóðir eru að setja miklu meiri pening. Þetta snýst meira um í hvað maður setur pening og hvernig maður ákveður að nota hann.“ Samvinna sama sem vinna Aron telur að lykilatriðið sé að þegar árangur næst í einni íþróttagrein er sú vitneskja yfirfærð á aðrar greinar og þjálfunaraðferðir. „Olympiatoppen er frábært apparat og þeir styðja mjög vel við íþróttafólk Noregs. Af hverju setja þeir pening í rannsóknir? Maður reynir alltaf að nota þetta sem maður kallar „best-practice“. Maður reynir að nota bestu aðferðirnar hverju sinni. Það er svolítið það sem litar Olympiatoppen og Norðmenn og þeirra nálgun til íþrótta, sérstaklega afreksíþrótta almennt. Maður er alltaf að reyna að finna nýjar og betri leiðir til að ná árangri.“ „Það er þessi samvinna þvert á íþróttagreinar sem oft fer í gegnum Olympiatoppen sem er oft lykillinn að árangri norskra íþrótta.“ Hvað er það sem gerir Lunde svona góða? Katrine Lunde er í raun einstök. Frá því að hún kom í norska landsliðið árið 2005 hefur hún verið meðal fremstu markmanna heims. Hún er enn að, 45 ára gömul. Aron hefur rannsakað hana með kollegum sínum og hefur greint hana í öreindir. Hvað er það sem gerir hana svona góða? „Það er mjög fjölþætt. Í fyrsta lagi er hún með einstakan persónuleika og einstaka nálgun á leikinn og íþróttina. Þetta er eitthvað sem er búið að vera hennar frá upphafi. Hún er mjög lituð af sínum bakgrunni og sinni fjölskyldu,“ segir Aron. „Faðir hennar er viðskiptamaður sem er búinn að ná góðum árangri í viðskiptum. Hann sagði við hana snemma: „Það skiptir mig engu máli hvað þú velur, svo lengi sem þú verður best í því sem þú velur.“ Það litaði svolítið hennar nálgun að öllu og þá að þessari íþrótt.“ Semsagt, vertu bara best. Engin pressa. En þetta virðist hafa virkað því Lunde hefur náð að vinna með einstakt hugarfar. Draumurinn um að halda hreinu Lunde hefur átt afar gjöfult samstarf með markmannsþjálfara Noregs í áraraðir. Þá býr hún yfir einstöku hugarfari. Lunde ætlaði sér alltaf að verða sú besta og á sér draum sem er í raun ekki hægt að ná. „Hún ætlaði alltaf að verða best í heimi. Hún hefur haft þá nálgun að íþróttinni að hún ætli að verða eins góð og hún mögulega getur. Lunde varð snemma góð en þegar hún kemst í landsliðið hittir hún sinn mentor. Það er Mats Olsson sem er búinn að vera markmannsþjálfari norska teymisins frá 2005.“ „Hann er búinn að vera hennar þjálfari frá því að hún byrjaði að ná þessum æðstu stigum innan íþróttarinnar. Þau saman eru ákveðið fullkomið „match“. Þau eru bæði það sem við köllum fullkomnunarsinnar. Það er oft neikvætt hlaðið orð, þess vegna töluðum við oft um excellencism í staðinn. Þau eru alltaf að leitast eftir því að vera eins góð og þau geta.“ „Þau eru með ákveðinn draum um að halda hreinu. Það er ekki hægt í handboltaleik, en það er þeirra æðsta markmið.“ Þau setja markið hátt en í raun er draumurinn ógerlegur. Að halda markinu hreinu í handbolta er óhugsandi. Það er nánast sama hversu lakur andstæðingurinn. Ísland vann Ástralíu með fjörtíu mörkum á HM karla árið 2003, 55-15. Þrátt fyrir yfirburðina skoruðu Ástralir 15 mörk og voru með sex í hálfleik. „Oft þegar ég nefni þetta þá segir fólk: „En geta þau ekki spilað á móti lélegum andstæðingum?“, en þau hafa engan áhuga á því. Katrine finnst ekkert gaman að spila á móti lélegum liðum,“ bætir Aron við. Hvað heldur henni gangandi? Lunde er enn að, 45 ára gömul, og hefur nú þegar unnið allt. Hvað heldur henni gangandi? „Það sem er áhugavert við hana er að það eru ekki leikirnir eða það að vinna stórar keppnir sem heldur henni gangandi. Það er frekar að vera eins góð og hún getur. Hún vinnur að því á hverjum einasta degi til að bæta sig og sína tækni. Þau eru þá að reyna að fullkomna hennar tækni og sjá til þess að hún geti í rauninni varið eins marga bolta og hún getur,“ segir Aron. Finnst eins og hún viti hvar boltinn endar Nálgun Lunde miðar í raun mun meira að hugaræfingum og undirbúningi fremur en að treysta á líkamlega snerpu. Auðvitað er hún til staðar en Lunde virðist vera sú langbesta í heimi þegar kemur að andlega þættinum. „Til að geta hreyft sig í áttina að boltanum þarftu að vita hvar hann kemur.“ „Hún vinnur mjög mikið í undirbúningi fyrir leiki. Hún vinnur í rauninni svo mikið í því að henni finnist eins og hún viti hvar boltinn endar. Lunde skoðar vídjó en það sem hún gerir sem er öðruvísi en margir aðrir er að hún skoðar skotin frá öllum vinklum. Hún skoðar þau aftan frá, frá hliðinni, frá sínu sjónarhorni og frá stúkunni,“ segir Aron. Er með svörin við prófinu Undirbúningur Lunde fyrir leiki er þannig að hún er með svörin við prófinu fyrir fram. „Lunde er ekki bara að skoða hvar og hvernig leikmenn skjóta heldur líka hvernig þau hreyfa sig fyrir ákveðin skot. Það kemur henni yfirleitt ekkert á óvart. Hún veit hvað leikmaðurinn er að fara að gera í ákveðnum aðstæðum.“ En Lunde stendur ekki bara og bíður. Hún stýrir vörninni til að fá ákveðin skot. „Þetta er ekki þannig að hún bara standi og bíði heldur reyni hún að gera það besta úr aðstæðunum sem koma upp. Hún reynir að stýra leiknum og lætur varnarmennina bjóða upp á ákveðin tækifæri.“ „Þegar þú leggur þetta allt saman þá finnst henni eins og hún sé komin með svörin við prófinu. Þá snýst þetta bara um að taka boltana sem hún veit hvert koma.“ Sjáum við fleiri slíkar rannsóknir? Þetta rannsóknarform verður einnig notað á aðra íþróttamenn á næstunni. Þar má til að nefna stór nöfn innan norsku íþróttasenunnar í bæði liðs- og einstaklingsíþróttum. Til að mynda stendur til að rannsaka einn fremsta íþróttamann Noregs í flokki fatlaðra. „Þetta gefur nýja vídd því þetta sýnir bæði á hvaða hátt þau eru eins og við hin en sömuleiðis hvað það er sem gerir þau svona frábær og áhugaverð.“ „Þetta er frábært tækifæri. Oft er maður að skoða hóp en þarna fékk maður tækifæri til að kafa mjög djúpt í einn einstakling. Þetta er eitthvað sem ég og minn rannsóknarhópur erum að gera svolítið mikið af.“ Hvað gæti Ísland lært af Noregi? Snúum okkur aftur að muninum á íþróttaumhverfinu hjá Íslandi og Noregi. Aron telur að Íslendingar þurfi að komast úr samkeppnisfarinu þegar kemur að íþróttum. „Ég myndi aðallega hugsa um þessa samvinnu. Að vinna meira þvert á íþróttagreinar. Að vera ekki alltaf í keppni við hvert annað. Þá bæði um fjármagn og einstaklinga, þessa íþróttakrakka sem sýna hæfileika.“ „Að við getum unnið meira þvert á íþróttagreinar og notað bestu þjálfara og bestu þekkingu, þvert á greinar, hvort sem það er badminton, fimleikar eða fótbolti. Að finna einhverjar nýjar, skemmtilegar og áhugaverðar leiðir. Þá notum við þær þvert á allar íþróttir á Íslandi og séum ekki í þessari endalausu keppni við hvert annað,“ bætir hann við. Þetta þekkist vel í Noregi og er það sama hvort um er að ræða liða- eða einstaklingsíþróttir. Norskt skíðagöngufólk vinnur til dæmis í teymum og ef ný rannsókn lítur dagsins ljós í þeim geira er hann nýttur í langhlaup og öfugt. Hvað er Ísland að gera rétt? Það er þó ekki svo að allt sé fullkomið í Noregi. Til að mynda er það víða svo að þjálfarar eru ekki faglærðir. Hvað er það sem Ísland er að gera rétt í samanburði við Noreg? „Það sem er mjög áhugavert hér er hvað við hugum vel að því sem við getum kallað grunnmúrinn. Við erum oft með mjög færa þjálfara snemma, sem gerir okkur kleift að ná ákveðnu forskoti og við verðum mjög góð snemma. En við verðum líka að passa okkur að halla okkur ekki of mikið á það. Við erum kannski ekki að standa okkur nægilega vel með framhaldið.“ En þetta er þó ekki fullkomið kerfi þar sem það þarf að taka næstu skref. Þá getur svo afreksmiðað kerfið leitt til þess að athyglin fer öll á þá hæfileikaríkustu snemma. „Við þurfum að vera betri í því að byggja á þessum frábæra grunni sem við erum oft komin inn með snemma. Mér finnst vanta svolítið upp á eftirfylgnina með þessum bestu.“ „Oft er það þannig að við fókuserum aðeins of mikið á þá bestu líka. Þau taka út sína hæfileika snemma, í staðinn fyrir að vinna með þá sem eiga mesta möguleika á að ná árangri.“ Fyrsta verk sem íþróttaeinvaldur Hvað væri fyrsta verk Arons ef hann fengi völd sem íþróttaeinvaldur hér á landi? Ísland tók stórt skref nýverið þegar Afreksmiðstöð Íslands var stofnuð. Þar er hugsunin lík Olympiatoppen upp á að afreksíþróttafólk geti fengið bestu mögulegu stoð. Hann telur Afreksmiðstöðina ákveðinn lykil en að hún þyrfti að miða við að veita afreksíþróttafólkinu aðstoð þvert á greinar. „Ég myndi í fyrsta lagi reyna að setja smá kraft inn í Afreksmiðstöð Íslands. Hún er nú bara rétt að komast á laggirnar, sko. Þannig það er kannski pínu óréttlátt að vera að gagnrýna þeirra vinnu strax. En aðalmálið er að sú vinna komist af stað fljótlega og að við séum að nota þetta fjármagn rétt. Að þetta fari ekki bara í laun fyrir iðkendur, sem er auðvitað frábært og mun gera mjög mikið fyrir þau.“ Þar vísar Aron í íþróttamannalaun sem var nýverið komið á. „Það þarf líka að fara í ákveðna miðlæga stýringu til að hjálpa þessum krökkum að ná árangri. Það sem gleymist svolítið er að þessir krakkar sem eru kannski bestir í sundi, handbolta eða fimleikum eiga oft meira sameiginlegt hvert með öðru en öðrum í sinni íþrótt.“ „Þau eigast við sömu áskoranir og aðrar en þeir sem eru kannski næst bestir í sinni íþrótt. Að fá sterkt miðlægt apparat sem hjálpar þessum krökkum að ná eins langt og þau geta. Það væri frábært,“ sagði Aron að lokum. Vinkillinn er greinaflokkur þar sem leitast er eftir að segja áhugaverðar íþróttasögur frá hinum ýmsu sjónarhornum.