„Lífið bara gerist og það gerist ekki síst þegar maður er lítill“

Leikkonan Hrefna Hallgrímsdóttir var snemma farin að velta fyrir sér tilgangi lífsins eftir lífsreynslu sem mótaði hana mjög. Hrefna fer með eitt aðalhlutverkanna í þáttunum Felix & Klara sem sýndir voru á RÚV og vöktu heilmikla hrifningu meðal áhorfenda. Hrefna lék dóttur þeirra hjóna. Hrefna er þó þekktari sem Skrítla í tvíeykinu Skoppa og Skrítla. Þær stöllur hafa glatt íslensk börn í rúm 20 ár og þegar Hrefna nam jákvæða sálfræði við Háskóla Íslands komst hún að því að svo sannarlega hafa þær haft jákvæð áhrif á börn. Hrefna var föstudagsgestur Mannlega þáttarins á Rás 1 og sagði frá æsku sinni og leiklistinni. „Það bara fór allt á hvolf“ „Lífið, það bara gerist og það gerist ekki síst þegar maður er lítill,“ segir Hrefna því bróðir hennar greindist með krabbamein þegar hún var átta ára. „Oft þegar ég hugsa til baka þá finnst mér lífið vera svolítið fyrir það og eftir það. Að upplifa svona, á þeim tíma var þetta allt öðruvísi og það var ekkert gert ráð fyrir að ég ætti einhvern þátt í öllum þessum spítaladögum og legu þar.“ „Þannig að ég varð allt í einu svolítið út undan, ósjálfrátt og enginn ætlaði sér það. En það varð kannski pínu hlutskiptið í svolítið mörg ár því þetta tók alveg sjö ár.“ Í dag er bróðir hennar blessunarlega heilsuhraustur. Hún segir móður sína hafa einangrast mjög við að vera með langveikt barn þar sem hún komst lítið frá og faðir hennar hafi þurft að vinna margfalt til að vega á móti. „Það bara fór allt á hvolf. Þá var enga aðstoð að fá fyrir aðstandendur.“ Hún telur öruggt að upplifun hennar yrði allt önnur í dag. „En ég hugsa oft til þessa tíma þar sem lífið var þegar allt var áhyggjulaust og ég á dásamlega foreldra sem voru mjög virk í lífi okkar systkinanna.“ Skelfilegt að upplifa að hver sem er getur dáið hvenær sem er Mikil breyting varð á lífi Hrefnu og hún telur sig ekki hafa fengið aðstoð við að vinna úr áfallinu sem barn. „Ég fékk kvíða og alls konar sem átti sér ekki nafn þá. Ég gat aldrei gist heima hjá einhverjum öðrum því ég fylltist kvíða. Öryggisnetið er tekið frá manni og þá verður maður svo umkomulaus.“ „Ég hugsa að af því að ég náði ekkert endilega að vinna mikið úr því þá, að þá hafi ég tekið það meira með mér út í lífið.“ Þá hafi hún farið að velta fyrir sér til hvers lífið væri og hver tilgangurinn væri að berjast í gegnum það. Hún gæti dáið á einu sekúndubroti og allir væru búnir að gleyma sér eftir viku. „Þetta er svo galið.“ „Það er mjög skelfilegt þegar maður er barn að upplifa það.“ Hún segir þessa reynslu mögulega vera ástæðuna fyrir því að hún leggi mikla áherslu á að vinna með börnum og birta fyrir þeim jákvæða sýn á lífið. „Við berum þetta það sem eftir er ævinnar“ Hrefna vilji sýna börnum að lífið sé fullt af góðum stundum og „innræta þau af öllu þessu góða þannig að þau geti tekið það með sér þegar þau þurfa að takast á við erfiðu málin.“ Fyrir ári skráði hún sig í jákvæða sálfræði og komst þar að því hve mikilvæg fyrstu tvö árin í lífi barns eru. „Því ég er 50 plús og var allt í einu farin að vinna úr alls konar hlutum frá því ég var barn. Þetta skiptir allt svo miklu máli því við berum þetta það sem eftir er ævinnar. Allt sem gerist á þessum fyrstu árum.“ Öll samskipti fólks litast af fyrstu árum þess sem og hvernig það tekst á við erfiðleika og góðar stundir. Í náminu gat Hrefna oft klappað sjálfri sér í laumi á bakið fyrir að hafa haft rétt fyrir sér í öll þessi ár, hvað jákvæð sýn á lífið hefur mikil áhrif á börn. „Ballettinn var mitt skjól“ Hrefna byrjaði í ballet í Listdansskóla Þjóðleikhússins þegar hún var níu ára og fann þar öryggið sem hún þráði. „Ballettinn var mitt skjól. Mér leið aldrei eins vel og þegar ég var komin niður í leikhús og þar var mitt öryggi.“ „Þar gat ég gleymt mér og var að gera allt sem mér fannst skemmtilegt. Ég var mjög heppin og fékk fullt af tækifærum til að leika í alls konar sýningum á stóra sviðinu og minni sviðum.“ „Þegar ég horfi til baka þá eru þetta töfrarnir í mínu lífi.“ Hún hefði þó aldrei getað ímyndað sér að hún gæti orðið leikkona og datt það raunar ekki í hug fyrr en þau hjónin ákváðu að fara í nám í Bandaríkjunum. Þá ætlaði hún að verða sérkennari en datt inn á leiklistardeild í skólanum sem maðurinn hennar var búinn að fá inngöngu í. Þar með var tekin ákvörðun um að hún skyldi verða leikkona. Tók málin í eigin hendur Þau bjuggu í þrjú ár í Flórída þar sem þau fóru í háskólanám og fluttust síðan til New York sem var annað ævintýri út af fyrir sig. Þar kynntist hún til að mynda fatahönnuðinum Tommy Hilfiger og eiginkonu hans í gegnum leiklistarverkefni í dýragarðinum í Central Park. Eftir tæp tvö ár skaust Hrefna heim til Íslands til að leika í Hróa hetti í Húsdýragarðinum og ætlaði aðeins að vera yfir sumarið en vegna ýmissa ástæðna fóru þau ekki aftur út. Árið 2002 eignaðist Hrefna elsta son sinn sem var fróðleiksþyrstur og hún hafði í nógu að snúast að örva drenginn. Hún fann að það vantaði íslenskt barnaefni fyrir yngstu börnin og ákvað að hún og Linda Ásgeirsdóttir, vinkona hennar, þyrftu að taka málin í eigin hendur. Þannig varð Skoppa og Skrítla til árið 2004. Hrefna segir hlutverkið í Felix & Klöru hafa verið afar kærkomið eftir rúmlega 20 ár af því að skapa barnaefni að fá að brjóta það aðeins upp. Þarna fékk hún að spreyta sig og kanna hvort hún gæti leikið konu á fimmtugsaldri. „Og að fá að vera í hópi með þessu stórkostlega fólki var bara gjöf, algjör. Jón og Edda og bræðurnir mínir og þessi dásamlegu börn sem voru að leika börnin mín. Raggi er náttúrulega bara einstakur,“ segir hún um Ragnar Bragason leikstjóra. „Manni leið alltaf svo vel. Hann er svo flinkur í því sem hann er að gera og hefur svo fallega sýn og hann nálgast það svo fallega, aldrei með neinu offorsi. Manni líður bara vel og hefur fulla trú á sér og það skiptir svo miklu máli.“ Nú er Hrefna á fullu að sýna Skoppu og Skrítlu í Borgarleikhúsinu. Þær Linda hafi haldið að þær þyrftu að hægja á sér sökum aldurs en nú sé „nokkuð ljóst að við erum alls ekki komnar í göngugrind.“ Það sé því nóg fram undan í þeim efnum. Hrefna ætlar líka að halda áfram með verkefnið Töfrabörnin sem varð til upp úr náminu hennar. Hún hlakkar mikið til að hitta börn um allt land og kenna þeim að leika sér með lífið og strá glimmeri yfir það. Þegar Hrefna Hallgrímsdóttir var ung stelpa fékk bróðir hennar krabbamein. Hún átti erfitt með að vinna úr áfallinu og telur það mögulega ástæðu þess að hún finni svo sterka þörf til að vinna með börnum. Rætt var við Hrefnu Hallgrímsdóttur í Mannlega þættinum á RÚV. Þáttinn má finna í spilaranum hér fyrir ofan.