Votviðrasamt næstu daga og slagveðursrigning á aðfangadag

Ákveðin suðaustanátt er yfir landinu og milt veður. Skúrir verða sunnan til í dag, einkum síðdegis þar sem myndarlegar dembur geta gert vart við sig. Þurrt verður að mestu norðanlands. Í kvöld koma skil úr vestri inn á landið og ganga til austurs með samfelldri úrkomu um tíma, rigningu eða slyddu og það kólnar. Á morgun hlýnar, með sunnan hvassviðri og rigningu. Þurrt veður á Norðausturlandi. „Slagveðursrigningin heldur síðan áfram á aðfangadag og jafnvel bætir í vindinn, sérstaklega fyrir norðan þar sem búast má við sterkum hviðum við fjöll,“ segir í textaspá Veðurstofu Íslands. Sunnan- og vestanlands má búast við miklu vatnsveðri með tilheyrandi vatnavöxtum og skriðuhættu. „Útlit fyrir að dragi aðeins úr veðurhæðinni og rigningu á jóladag, en líklega verður það ekki fyrr en á annan í jólum þar sem veðrið gæti skipt um gír og orðið eitthvað jólalegra vonandi,“ segir í spá Veðurstofunnar.