Hefja sölu á hliðstæðu Simponi í Evrópu

Alvotech tilkynnti í dag að markaðssetning á Gobivaz, það er hliðstæða Alvotech við lyfið Simponi (golimumab), væri hafin í Evrópu. Lyfið er fyrsta hliðstæðan við Simponi sem kemur á markað í heiminum, að því er segir í tilkynningu frá Alvotech. Lyfið er notað til meðferðar við ýmsum bólgusjúkdómum. Heilbrigðisþjónusta Englands (NHS) hefur samið um kaup á Simponi í stað fumlyfsins eftir opinbert útboð. Lyfjafyrirtækið Advanz Pharma átti besta tilboðið í útboðinu. Alvotech og Advanz Pharma gerðu samkomulag um markaðssetningu fimm lyfja, þar á meðal hliðstæðunnar við Simponi, í maí 2023. Mikilvæg viðbót fyrir sjúklinga „Við fögnum því að meðferð sjúklinga með Gobivaz er hafin og að fyrsta hliðstæðan við Simponi sem hlotið hefur markaðsleyfi sé komin á markað,“ er haft eftir Róberti Wessman, stjórnarformanni og forstjóra Alvotech, í tilkynningu fyrirtækisins. „Þessi hliðstæða við Simponi er mikilvæg viðbót fyrir sjúklinga og meðferðaraðila. Niðurstaðan í útboði NHS England sýnir vel hversu mikilvægt er fyrir heilbrigðisstofnanir og greiðendur lyfja að auka framboð af hágæða líftæknilyfjum,“ segir Róbert. Alvotech hefur reynt að fá markaðsleyfi fyrir Simponi í Bandaríkjunum. Í síðasta mánuði var greint frá því að bandaríska lyfjastofnunin (FDA) gæti ekki veitt Alvotech markaðsleyfi fyrir lyfinu. Niðurstaðan fékkst að lokinni úttekt FDA á aðstöðu til lyfjaframleiðslu fyrirtækisins í Reykjavík.