Sænsk yfirvöld ákváðu að hefja ekki rannsókn á því hvort ferðir rússneska skipsins Adler brytu í bága við viðskiptaþvinganir. Skipinu verður því leyft að sigla úr sænskri landhelgi. Skipið var á norðurleið um Eyrarsund þegar vél þess bilaði og það rak inn í sænska landhelgi. Skipið er í eigu rússneska fyrirtækisins M Leasing LLC og er á lista Bandaríkjanna og Evrópusambandsins yfir viðskiptaþvinganir. Skip félagsins eru meðal annars notuð til að flytja skotfæri og vopn frá Norður-Kóreu og til rússneskra hermanna á víglínunni í austurhéruðum Úkraínu. Sænsk yfirvöld fóru um borð í skipið í nótt, þar sem það lá við akkeri nærri Hauganesi í Suður-Svíþjóð, til að skoða farm þess. Sænska tollgæslan naut aðstoðar sænsku strandgæslunnar þegar hún fór um borð. Sérsveit sænsku lögreglunnar og öryggislögreglan komu einnig að málinu. Eftir rannsókn tollgæslunnar var það í höndum saksóknara að ákveða hvort skipið yrði rannsakað frekar. Það verður ekki gert.