Hinn bandaríski Ryan Lochte fyrrverandi sundmaður og margverðlaunaður sem slíkur hefur sett þrjá af sex gullverðlaunapeningum sínum sem hann vann á Ólympíuleikum, til sölu. Verðlaunapeningana þrjá fékk hann alla fyrir sigur í 4x200 metra skriðsundi og vann þá með sveit Bandaríkjanna á leikunum í Aþenu árið 2004, í Beijing 2008 og í Ríó de Janeiro árið 2016. Hann vann líka gullið með sveitinni í þessari sömu grein í London árið 2012 en þá medalíu setti Lochte hins vegar ekki í sölu frekar en einstaklingsverðlaunin sem hann vann á Ólympíuleikum. Lochte vann til alls 12 verðlauna á Ólympíuleikum, þar af sex gull á árunum 2012-2016 en hann lagði keppnisskýluna á hilluna sumarið 2021 eftir að hafa mistekist að tryggja sér þátttökurétt á Ólympíuleikunum í Tókýó sama sumar. Hvergi kemur fram hvort Lochte sé í einhverjum fjárhagsvandræðum, en þó er það tekið fram í einhverjum fréttum að eiginkona hans til níu ára hafi sótt um skilnað í mars í þessu ári. Ekki í fyrsta sinn sem hann selur verðlaunin sín Reyndar er þetta ekki í fyrsta sinn sem Lochte býður upp ólympíuverðlaunin sín því árið 2022 setti hann alla þrjá silfurverðlaunapeningana sína og öll sín þrjú brons í sölu á uppboðssíðu. Í viðtali árið 2024 sagði hann um þann gjörning að verðlaunapeningarnir sínir stæðu fyrir minningar sem hann myndi eiga út lífið, en hann vildi á þeim tíma að þessir peningar gerðu eitthvað meira en að hanga uppi á vegg heima hjá honum. Hver svo sem raunveruleg ástæða þess að Lochte hefur nú sett þrjá gullverðlaunapeninga sína líka í sölu að þá sendi hann frá sér yfirlýsingu á Instagram þar sem hann fer meðal annars yfir skilnaðinn við eiginkonu sína og ræðir verðlaunapeningana. „Ég synti aldrei fyrir verðlaunapeningana. Ástríða mín var alltaf sú samt að vera meðal bestu sundmanna í heimi. Fyrir þessa verðlaunapeninga? Þeir voru bara kirsuberið ofan á kökuna á þessari ótrúlega ferðalagi sem ferillinn var,“ segir meðal annars í yfirlýsingu Lochte.