Bondi-strönd: Árásarmenn vörpuðu sprengjum sem sprungu ekki

Árásarmennirnir sem frömdu hryðjuverk á Bondi-strönd í Ástralíu á sunnudaginn fyrir viku höfðu undirbúið árásina mánuðum saman. Þeir höfðu gefið út myndskeið í október með fána hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki í bakgrunni. Þar fóru þeir hörðum orðum um "síonista." Fimmtán voru drepnir í árásinni sem var gerð á samkomu sem markaði upphaf ljósahátíðar gyðinga, Hanukkah. Þetta er mannskæðasta skotárás í Ástralíu í tæp 30 ár. Í lögregluskjölum sem voru birt í morgun kemur fram að feðgarnir Sajid og Naveed Akram hafi undirbúið árásina í marga mánuði. Þeir hafi verið í sérstakri þjálfun í meðferð skotvopna í sveitum Nýja Suður-Wales. Myndir og myndskeið fylgdu af þeim skjóta af haglabyssum og hreyfa sig á svokallaðan „herkænskulegan hátt.“ Í október birtu þeir svo myndskeið þar sem þeir fóru hörðum orðum um "síonista". Meðan þeir gerðu það sátu þeir fyrir framan fána hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við íslamskt ríki. Ekki er tilgreint í skjölunum hvað þeir sögðu nákvæmlega í þessu myndskeiði. Þá könnuðu feðgarnir aðstæður á Bondi ströndinni að kvöldi til aðeins nokkrum dögum fyrir árásina. Þeir gengu meðal annars göngubrúna þar sem þeir svo athöfnuðu sig í árásinni. Í upphafi hennar vörpuðu þeir fjórum sprengjum á fólk á hátíðinni, þar af þremur rörasprengjum, en þær sprungu ekki. Slíkt hefði getað haft mun alvarlegri afleiðingar en raunin var. Fimmta sprengjan fannst svo í bíl þeirra. Feðgarnir sem frömdu hryðjuverkaárásina á Bondi-strönd í Ástralíu fyrir rúmri viku vörpuðu fjórum sprengjum á mannfjöldann áður en þeir hófu skothríð. Þær sprungu ekki. Árásin var í undirbúningi í nokkra mánuði. Anthony Albanese forsætisráðherra Ástralíu bað í morgun gyðingasamfélagið og þjóðina í heild sinni afsökunar á árásinni. „Sem forsætisráðherra finn ég til ábyrgðar fyrir illvirki sem var framið meðan ég er forsætisráðherra. Og mér þykir leitt að gyðingasamfélagið og þjóðin í heild sinni hafi gengið í gegnum þetta. Stjórnvöld munu vinna að því á hverjum degi að vernda gyðinga í Ástralíu,“ sagði hann. Albanese, sem hefur verið undir auknum pólitískum þrýstingi eftir árásina, boðaði lög sem kvæðu á um harðari refsingar við hatursorðræðu. „Við ætlum ekki að láta hryðjuverkamenn undir áhrifum íslamska ríkisins vinna. Við látum þá ekki sundra samfélagi okkar og við komumst saman í gegnum þetta,“ sagði hann. Sajid Akram var skotinn til bana af lögreglu eftir árásina en sonur hans, Naveed, var fluttur á sjúkrahús. Hann var útskrifaður þaðan í morgun og er nú í gæsluvarðhaldi. Hann er ákærður fyrir 15 morð og 40 morðtilraunir. Réttarhöld hófust í málinu í morgun að staðartíma en Naveed mætti ekki fyrir réttinn.