Verðbólgumæling sem birt var í dag var langt yfir væntingum greiningaraðila og aðalhagfræðingur Arion banka telur flugfargjöld og hækkun á hitaveitu hafa haft mest áhrif. Ársverðbólga mælist 4,5% í desember, jókst um 0,8 prósentustig á milli mánaða, og hefur ekki verið meiri frá því í janúar. „Þetta kom dálítið á óvart og var langt yfir opinberum spám sem gerðu ráð fyrir 0,6% hækkun,“ segir Erna Björg Sverrisdóttir, aðalhagfræðingur Arion banka. Tveir undirliðir vegi mest í hækkuninni. „Flugfargjöld hækkuðu meira en gert var ráð fyrir. Þau hækka alltaf í desember en þetta er miklu meiri hækkun en undanfarin ár í desember.“ Erna segir mælingaraðferð Hagstofunnar gæti haft áhrif. Hagstofan mælir flugfargjöld á átta, fjögurra og tveggja vikna fresti. „Þetta er fyrsta mælingin þar sem allar mælingar fara fram, eftir gjaldþrot Play.“ Eftir gjaldþrot flugfélagsins hafi Hagstofan þurft að bregðast við og þá hafi verið horft til annarra þátta, mögulega fargjalda erlendra flugfélaga. „Hinn þátturinn var mikil hækkun á hitaveitu, hún hækkaði um 9,2% sem er mesta hækkun í einum mánuði frá 2010.“ Erna bendir á að í upphafi mánaðar hafi Veitur boðað gjaldskrárhækkanir og það geti hafa haft áhrif. „Þessir tveir liðir fara mest til í að skýra frávik mælinga.“ Hún segir ýmislegt jákvætt hafa verið í mælingunum. „Matarkarfan lækkaði á milli mánaða, það er jákvæður punktur.“ Aðspurð um framhaldið segir Erna búast við því að verðbólgan hangi vel yfir fjórum prósentum næstu mánuði.