Árvakur og Sýn fá hæstu rekstrarstyrkina

28 fjölmiðlar deila á milli sín rúmlega 544 milljónum króna í rekstrarstyrk fyrir árið 2025. Líkt og fyrri ár eru það Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins, og Sýn sem fá hæstu styrkina. Fjölmiðlarnir fá hvor um sig tæplega 104 milljónir. Alls bárust 30 umsóknir um rekstrarstuðning. Samtals var sótt um stuðning fyrir rétt rúmlega milljarð. Umsóknum frá Kaffinu fjölmiðli ehf. og Spássíu ehf. var hafnað þar sem þær uppfylltu ekki skilyrði. Umsókn Bændasamtaka Íslands, sem gefa út Bændablaðið, var vísað frá þar sem hún barst eftir að umsóknarfresti lauk. „Til úthlutunar voru 550.000.000 kr. að frádregnum kostnaði vegna umsýslu, auglýsinga, þóknunar fyrir störf úthlutunarnefndar o.fl. sem var um 1,09% af heildarfjárhæð eða 5.979.027 kr. Til úthlutunar voru því 544.020.973 kr.,“ segir í tilkynningu menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytisins .