„Við setjum ekki fólk út á götu í brjáluðum veðrum“

Ástæða þess að heimilislausir eru úti á daginn yfir vetrarmánuðina er húsnæðisvandi, segir sviðsstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar. Opnun gistiskýla verði lengd eftir þörfum. Kaffistofa Samhjálpar hefur undanfarin ár verið opin heimilislausum á daginn, milli klukkan tvö og fimm, frá nóvemberbyrjun til loka mars. Það var á grundvelli samnings Samhjálpar og Reykjavíkurborgar fyrir hönd sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu. Samningurinn fékkst ekki endurnýjaður í ár. Fulltrúar Rauða krossins og Samhjálpar sögðust í fréttum um helgina óttast afleiðingarnar og vísuðu ábyrgðinni á Reykjavíkurborg. Rannveig Einarsdóttir, sviðstjóri velferðarsviðs Reykjavíkurborgar, segir ekki hafa vantað vilja til að semja en það sem standi út af sé húsnæðisvandi Samhjálpar. „Það tókst ekki að gera þennan samning núna vegna þess að Samhjálp er á hrakhólum með húsnæði.“ Kaffistofan vonandi tilbúin fyrir næsta vetur Hún vonast til að kaffistofa Samhjálpar verði tilbúin næsta vetur. Þangað til muni borgin sjá til þess að neyðarskýli borgarinnar séu opin lengur í vondu veðri eins og tíðkaðist áður en fyrst var samið við Samhjálp fyrir tveimur árum. „Þó að við setjum einhver svona viðmið með rauðar og appelsínugular viðvaranir þá metum við það auðvitað hverju sinni. Við setjum ekki fólk út á götu í brjáluðum veðrum, það höfum við aldrei gert þannig að það er engin breyting þar á.“