Fyrir marga fótboltaunnendur er hluti af jólafríinu eyrnamerktur í það að sitja upp í sófa stóran hluta annars dags jóla og glápa á leiki í enska boltanum, enda löng hefð fyrir því að heil umferð sé spiluð að mestu leyti á þeim degi. Nú bregður hins vegar svo við að í ár er aðeins einn leikur á dagskrá 26. desember í ensku úrvalsdeildinni sem er viðureign Manchester United og Newcastle sem hefst þó ekki fyrr en klukkan átta um kvöldið. En hverju sætir? Hvers vegna er dagurinn ekki undirlagður af leikjum eins og hefur verið í áraraðir? Sjónvarpssamningar hafa sitt að segja Þetta helgast meðal annars af þéttari dagskrá þar sem koma þarf inn leikjum í öðrum keppnum fyrir í dagatalinu hvort sem eru bikarkeppnir, Evrópuleikir félagsliða sem hefur fjölgað á undanförnum árum og svo landsliðakeppnir - en helsta ástæðan eru sjónvarpsréttasamningar. Samningur ensku úrvalsdeildarinnar við sjónvarpsrétthafa kveður nefnilega á um það að spila þurfi leiki yfir 33 helgar á leiktíðinni, en alls eru 38 umferðir í deildinni. Þar sem annan dag jóla ber upp á föstudag þarf að spila megnið af leikjum umferðarinnar á laugardegi og sunnudegi og því verður fótboltaveislan þessi jólin sett á 27. og 28. desember. Þetta þýðir þó jafnframt að annar í jólum á næsta ári verður laugardagur, og því ættu fótboltaunnendur ekki að hafa of miklar áhyggjur, því ætla má að 26. desember á næsta ári muni innihalda fótboltaleiki jafnt og þétt yfir daginn eins og verið hefur. Leikið í neðri deildunum eins og venjulega Hins vegar eru engar kvaðir á neðri deildir Englands með leikdaga, og því verða heilu umferðirnar spilaðar í næstefstu deild Englands og jafnvel neðar á öðrum degi jóla í ár sem gæti hjálpað fótboltafíklum í fráhvarfi þetta árið.