Mikið álag hefur verið á Sjúkrahúsinu á Akureyri (SAk) undanfarna daga. Mjög veikt fólk hefur verið flutt þaðan á Landspítalann vegna manneklu. „Síðasta vika var býsna þung. Þá kom heilmikil holskefla inflúensutilfella sem fylltu lyflækningadeild og gjörgæsludeild og nánast allar deildir sjúkrahússins,“ segir Hannes Petersen, staðgengill framkvæmdastjóra lækninga á SAk. Álagið í heilbrigðiskerfinu hefur verið mikið að undanförnu og virðist hafa náð hápunkti þegar sjúklingar voru vistaðir í bílakjallara Landspítalans. Ekki hefur verið gripið til þess neyðarúrræðis á Akureyri en nærri öll pláss eru full og staðan á gjörgæslu er sérstaklega þung. Gjörgæslusjúklingar hafa verið fluttir suður Samkvæmt heimildum fréttastofu var mjög veikur sjúklingur fluttur frá SAk á Landspítalann. Þótt spítalinn tjái sig ekki um einstök tilvik, segir Hannes slíkt hafa komið fyrir. Sjúklingur sem hafi þurft í öndunarvél hafi nýverið verið fluttur suður. Það snúist þó ekki um tækjakostinn, það séu til fleiri vélar en það þurfi að manna þær. Mannekla hefur verið á sjúkrahúsinu síðustu mánuði en Hannes segir að búið sé að manna hátíðarnar. Fólk eigi alls ekki að veigra sér við að leita á sjúkrahúsið vegna bráðra veikinda eða slysa. Alla vega yfir jól og áramót, þá eru allar vaktalínur á sjúkrahúsinu mannaðar.