Samherja stefnt fyrir 140 milljarða

Breskt innheimtufyrirtæki hefur stefnt Samherja og krefst 140 milljarða króna, vegna krafna namibísks ríkisfyrirtækis. Málið verður rekið fyrir breskum dómstólum og beinist einnig að stjórnendum Samherja. Þetta segir Baldvin Þorsteinsson forstjóri Samherja. „Fyrirtæki í Bretlandi hefur stefnt fyrirtækinu fyrir breskum dómstólum. Þeir hafa þá samið um að, eins og ég skil þetta, að kaupa kröfu af namibísku ríkisfyrirtæki og taka þá að sér að reka kröfumál á hendur Samherja fyrir breskum dómstólum,“ segir Baldvin í samtali við fréttastofu. Hann greindi frá stefnunni á hendur Samherja í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann segir Samherja ekki hafa fengið nákvæma útlistun á forsendum kröfunnar því stefnan hafi ekki verið birt fyrirtækinu í heild. Fyrirtækið Restitution Litigation Limited birti stefnuna gegn Samherja, auk dótturfélaga, og stjórnendum innan Samherja, þar á meðal Þorsteini Má Baldvinssyni fyrrverandi forstjóra. Baldvin segir Restitution Litigation hafa verið stofnað í þeim tilgangi að höfða málið. Hann kveðst ekki geta sagt til um forsendur kröfunnar því Samherji bíði eftir að stefnan verði birt fyrirtækinu í heild sinni. Hann býst við að málsmeðferð fyrir dómi hefjist á síðari hluta næsta árs. Hver höfðar málið og gegn hverjum? Málið er höfðað gegn Samherja, dótturfélögum auk stjórnenda, og fulltrúar þeirra eru norska lögmannsstofan Wikborg Rein LLP. Samherji hf. Samherji Holding ehf. Onward Investment Limited. Onward Fishing Company Limited. UK Fisheries Limited. Þorsteinn Már Baldvinsson. Ingvar Guðmundur Júlíusson. Aðalsteinn Helgason. Egill Helgi Árnason. Stefnendur eru á vef breska dómstólsins skráðir sem félagið Restitution Litigation Limited og fulltrúi þess er lögfræðifyrirtækið Pallas Partners LLP, sem er með skrifstofur í Lundúnum og New York. Súrrealísk upphæð Um sex eru síðan fjölmiðlar sögðu fyrst frá ásökunum um stórfelld mútubrot og vafasamt viðskiptasamband Samherja við namibíska áhrifamenn. Héraðssaksóknari hefur ekki tekið ákvörðun um hvort ákært verði í málinu hér á landi. Réttarhöld hefjast senn í Namibíu yfir tíu mönnum sem eru ákærðir fyrir að þiggja milljarða af Samherja í skiptum fyrir aðgang að namibískum fiskiauðlindum. Baldvin segir fyrstu viðbrögð við stefnunni hafa verið að upphæðin sem krafan hljóðar upp á, 140 milljarðar króna, væri súrrealísk. Töluvert umfram eigið fé Samherja „Þetta er töluvert umfram, til dæmis eigið fé Samherja, og við munum eðlilega bara verjast þessari kröfu. Þegar við fáum að sjá hana í heild sinni munum við koma með nánari afstöðu.“ Á hvaða forsendum er þessi krafa gerð? „Það er góð spurning. Við höfum verið látnir vita að okkur hafi verið stefnt en við höfum ekki fengið að sjá alla stefnuna. Við höfum bara fengið helstu atriði úr henni og ég held að það sé bara heppilegast að við fáum alla stefnuna til þess að maður tjái sig nákvæmlega um hvað býr að baki. En þetta hefur augljóslega að gera með starfsemi okkar í Namibíu.“ Samherji ætli að verjast en Baldvin segist fyrst og fremst hugsa um rekstur fyrirtækisins. „Upplifunin er sú að maður verður fyrst og fremst að hugsa um rekstur Samherja og láta þetta ekki trufla það. Við auðvitað tökum til varna og svo sjáum við bara hvernig málinu vindur fram. Þetta er nýuppkomið, upphæðin er gríðarlega há, þannig að maður verður að viðurkenna að maður er ekki búinn að hugsa alla hluti til enda í þessu.“