Hringdi í Þorgerði Katrínu eftir fundinn í menntamálaráðuneytinu

Utanríkisráðherra upplýsti forsætisráðherra um að staða Ársæls Guðmundssonar skólameistara Borgarholtsskóla skyldi auglýst. Ákvörðun um að auglýsa stöðu skólameistara á Egilsstöðum virðist hafa verið tekin í flýti. Þetta kemur fram í gögnum sem fréttastofa RÚV óskaði eftir frá forsætisráðuneytinu og fékk afhent fyrir helgi. Ársæli var tilkynnt á fundi í menntamálaráðuneytinu 27. nóvember að staða hans yrði auglýst. Guðmundur Ingi Kristinsson menntamálaráðherra sat ekki fundinn en fyrir hönd ráðuneytisins sátu aðstoðarmaður Guðmundar Inga, ráðuneytisstjóri og mannauðsstjóri. Rökin fyrir breytingunni voru þau að fyrirhugaðar væru umfangsmiklar breytingar á framhaldsskólastiginu. Um leið var honum tilkynnt að honum væri frjálst að sækja um stöðuna aftur. Vildi vita hvað væri eiginlega í gangi Í svari forsætisráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu kemur fram að forsætisráðherra var upplýst um ákvörðun Guðmundar Inga 27. nóvember, sama dag og menntamálaráðuneytið tilkynnti Ársæli að staðan yrði auglýst. Það vekur athygli að Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, utanríkisráðherra, upplýsti forsætisráðherra símleiðis. Það gerði hún eftir að Ársæll greindi henni frá stöðu mála. Ársæll staðfestir í samtali við fréttastofu að hann hafi hringt í Þorgerði Katrínu eftir fundinn í menntamálaráðuneytinu. Hann þekki hana vel enda hafi hann starfað mikið með henni áður, meðal annars þegar hún var menntamálaráðherra. Hann segist hafa verið svo undrandi á vinnubrögðum ráðuneytisins að hann hafi einfaldlega viljað spyrja Þorgerði Katrínu hvað væri eiginlega í gangi hjá ríkisstjórninni. Ársæll segir að Þorgerður hafi hvorki kannast við málið né gefið fyrirheit um að hún myndi beita sér í því. Engin ákvörðun en ákvörðun daginn eftir Í gögnum forsætisráðuneytisins eru enn fremur drög að fréttatilkynningu og talpunktar frá aðstoðarmanni Guðmundar Inga sem sendir voru aðstoðarmanni forsætisráðherra. Talpunktarnir eru sendir 4. desember og í þeim kemur meðal annars fram að engin ákvörðun hafi verið tekin um að auglýsa stöður annarra skólameistara. Skipunartími þriggja rennur út á næsta ári. Daginn eftir, þann 5. desember, upplýsir Guðmundur Ingi aftur á móti í viðtali við RÚV að það standi til að auglýsa aðra stöðu, skólameistara Menntaskólans á Egilsstöðum. Skólameistarinn, Árni Ólason, frétti fyrst af þeirri ákvörðun þegar hann heyrði umrætt viðtal. Skömmu eftir að málið kom upp fór Guðmundur Ingi í veikindaleyfi og er óvíst hvenær hann snýrt tilbaka. Eyjólfur Ármannsson, innviðaráðherra, var skipaður staðgengill Guðmundar Inga en um helgina var greint frá því að hann væri farinn í fæðingarorlof. Inga Sæland tók við keflinu og fer hún því fyrir þremur ráðuneytum um þessar mundir, ráðuneyti Eyjólfs, Guðmundar Inga og sínu eigin.