Appelsínugular viðvaranir á aðfangadag

Gular viðvaranir hafa verið gefnar út fyrir nær allt vestanvert landið á morgun. Þær fyrstu taka gildi upp úr hádegi á Vestfjörðum og við Breiðafjörð upp úr hádegi. Þar er búist við talsverðri eða mikilli rigningu. Búast má við auknu afrennsli og vatnavöxtum í ám og lækjum. Það eykur hættu á flóðum og skriðuföllum og getur valdið tjóni og raskað samgöngum. Einnig fylgir þessu aukið álag á fráveitukerfi. Eftir því sem líður á morgundaginn taka veðurviðvaranir vegna roks og rigningar gildi víðar á landinu. Vindur getur víða orðið varasamur fyrir ökumenn á ökutækjum sem taka á sig mikinn vind. Nánar er hægt að glöggva sig á viðvörunum í hverjum landshluta fyrir sig á vef Veðurstofunnar . Þegar mest lætur verða veðurviðvaranir í gildi á eftirfarandi stöðum: Suðurlandi, Faxaflóa, Höfuðborgarsvæðinu, við Breiðafjörð, Vestfjörðum, Norðurlandi vestra, Norðurlandi eystra, Austurlandi og Austfjörðum. Þar af er appelsínugul viðvörun vegna sunnan storms eða roks á Vestfjörðum, Norðurlandi eystra og vestra. Síðustu viðvaranir falla úr gildi aðfaranótt jóladags.