Fundu lífsýni mannsins á fatnaði drengsins – málið talið líklegt til sakfellingar

Meint kynferðisbrot karlmanns gegn tíu ára dreng er talið líklegt til sakfellingar. Þetta staðfestir Hildur Sunna Pálmadóttir, sviðsstjóri ákærusviðs hjá lögreglunni. Hún vill þó ekki tjá sig um fyrir hvaða brot. Rannsókn málsins lauk fyrir skemmstu en þar er maður grunaður um að hafa farið inn á heimili fjölskyldu í Hafnarfirði að næturlagi og brotið á tíu ára gömlum dreng í svefnherbergi hans. Lengst af var það eina sem stóð út af í rannsókninni niðurstaða úr DNA-prufu. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur verið staðfest að lífsýni mannsins hafi fundist á fatnaði drengsins. Aðspurð kveðst Hildur Sunna ekki geta tjáð sig um það. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald í þrjá daga en sleppt að því loknu. Skilyrði fyrir áframhaldandi gæsluvarðhaldi yfir manninum voru ekki talin uppfyllt og segir Hildur Sunna það enn óbreytt. Spurð hvort það geti breyst segir Hildur að svo sé í raun ekki.