Í byrjun desember bárust fregnir af því að Hilmar Örn Jónsson hefði náð sínu næstlengsta kasti í sleggjukasti á ferlinum þegar hann kastaði 76,70 metra á móti í Svíþjóð. Aðeins Íslandsmet hans frá árinu 2020 sem er 77,10 metrar er lengra af lengstu köstum Íslendinga. Hilmar gerði svo aftur vel 15. desember þegar hann keppti á öðru móti í Svíþjóð og náði þar kasti upp á 76,80 metra. Formlegu frjálsíþróttatímabili er í raun lokið hvað kastara varðar, þannig hvernig í ósköpunum stendur á því að Hilmar sé nálægt því að toppa sinn besta árangur núna rétt fyrir jól? „Ég myndi nú alls ekki segja að ég hafi verið að ná neinum toppi. En æfingarnar ganga vel og það voru mót á þessum tíma þar sem allt small saman,“ sagði sleggjukastarinn Hilmar Örn Jónsson þegar RÚV ræddi við hann í dag. Æfingarnar voru ekki miðaðar við þessi mót „Ég miðaði æfingarnar í sjálfu sér ekkert við þessi mót, en það er einhvern veginn allt í þessa átt hjá mér núna,“ sagði Hilmar sem er í raun á undirbúningstímabili fyrir næsta sumar. Hann æfir þó átta sinnum í viku. „Ég er búinn að vera að kasta mikið öðrum þyngdum við æfingar, bæði sleggjum sem eru léttari og þyngri. Þannig að það var svo bara spurning hvað keppnisþyngdin færi langt hjá mér í móti. Þannig miðað hvernig æfingar hafa gengið þá átti ég alveg von á því að ég næði frekar löngum köstum. Þannig það gekk svona nokkurn veginn allt upp hjá mér en samt ekkert allt. Sleggjan hefði alveg getað farið lengra.“ En hverjar eru þá væntingarnar fyrir næsta sumar? „Ef gangurinn verður áfram svona hjá mér á ég alveg von á því að árangurinn næsta sumar verði betri en hefur verið,“ segir Hilmar sem kastaði sig inn í úrslitin á Evrópumótinu árið 2022 en gerði öll köst sín svo ógild á HM 2023, komst ekki í úrslit á EM 2024 og fékk ekki keppnisrétt á HM í ár. Telur sig eiga mikið inni „Mér finnst ég eiga mikið inni. Síðustu tvö ár hafa alveg verið svolítið erfið. Allt til dæmis í æfingaumhverfinu var erfðara en það þurfti að vera en núna eru hlutirnir farnir að rúlla mun betur,“ sagði Hilmar sem flutti með fjölskyldu sinni til Falun í Svíþjóð fyrir ári síðan þar sem hann hefur komist í betri rútínu. „Það er fullt af fólki að æfa sleggju með mér hér og svo er ég með þjálfarann minn með mér á hverri æfingu. Þannig þetta er mikill munur frá því sem áður var,“ sagði Hilmar sem hefur verið þjálfaður af Svíanum Mattias Jons undanfarin ár. Sú þjálfun fór þó að mestu fram í fjarþjálfun á meðan Hilmar var búsettur á Íslandi. Flutningar til Svíþjóðar hafa breytt miklu Hilmar verður þrítugur á næsta ári og á konu sína, Kristínu Karlsdóttur, tvö börn. En var ekkert mál að sannfæra konuna sína um að flytja til Svíþjóðar til að geta einbeitt sér að sleggjukastinu? „Við þurftum alveg að ræða þetta fram og til baka. En það var alveg ljóst að ef ég ætlaði að halda áfram að kasta sleggju þá þyrfti eitthvað stórtækt að gerast svo þetta myndi allt ganga upp. Við eigum núna tvö börn og eignuðumst yngri dóttur okkar í febrúar í Falun. Við ákváðum að við yrðum að flytja út áður en hún fæddist svo þetta myndi ganga upp. Þannig við fluttum í desember á meðan konan mín var kasólétt. En þetta hefur gengið ótrúlega vel og allir eru mjög ánægðir. Þannig við sjáum ekkert eftir þessu,“ sagði Hilmar Örn. Hilmar hefur verið fastagestur á HM og EM undanfarin ár en á enn eftir að ná stóra markmiðinu sínu, að keppa á Ólympíuleikum. Hann var þó nálægt því bæði fyrir leikana í Tókýó 2021 og í París í fyrra. „Það verður að segjast eins og er að Ólympíuleikarnir eru stærsta markmiðið og maður er í augnablikinu að miða við næstu þrjú ár. En það eru nóg af mótum fram að Ólympíuleikum en það eru náttúrulega nóg af mótum þangað til og það er betra að byrja á þeim,“ sagði Hilmar en hans næsta stóra mót verður Evrópubikarmótið í kastgreinum sem verður á Kýpur um miðjan mars. Stóra mótið á árinu 2026 hjá Hilmari verður svo Evrópumótið í frjálsíþróttum sem verður haldið í Birmingham á Englandi.