Fyrir tæpum tíu árum var haldin hönnunarsamkeppni um nýtt skrifstofuhúsnæði Alþingis. Nú hefur Smiðja verið tekin í notkun, fimm hæða bygging, um 6500 fermetrar. Kostnaðaráætlun var 5.515 milljónir en heildarkostnaður er 5.649 milljónir þannig að kostnaðaraukning er 134 milljónir eða 2,4 prósent. Framkvæmdin sjálf var hins vegar ódýrari um 150 milljónir eða 3,7 prósent. Meðal þess sem skýrir aukinn heildarkostnað eru gluggar sem ekki þoldu íslenska veðráttu. Í meira en 40 ár hefur verið rætt að koma starfsemi Alþingis undir eitt þak. Nefndastarf og skrifstofur þingmanna hafa verið í húsunum í kringum Austurvöll. Með því að öll starfsemi er nú í Smiðju sparast í rekstrarkostnaði leiguhúsnæðis 70 milljónir króna á ári, að sögn Sverris Jónssonar skrifstofustjóra Alþingis.