Rússar heita Venesúela stuðningi vegna aðgerða Bandaríkjanna

Stjórnvöld í Rússlandi og Venesúela heita aukinni samvinnu á alþjóðasviðinu í ljósi aðgerða Bandaríkjanna, sem hafa beinst að venesúelskum bátum og skipum á Karíbahafi og Kyrrahafi. Yfir hundrað hafa farist í árásum Bandaríkjahers á báta á Karíbahafi og Austur-Kyrrahafi síðan í september. Árásirnar eru sagðar beinast að fíkniefnasmyglurum en haldbærar sannanir hafa ekki verið lagðar fram um meinta glæpi áhafnanna. Bandaríkin hafa einnig lagt hald á tvö venesúelsk olíuflutningaskip á jafnmörgum vikum og segjast hvergi nærri hætt. Utanríkisráðherrar Rússlands og Venesúela ræddu saman í síma í dag og lýstu svo þungum áhyggjum af aðgerðum Bandaríkjanna; sem þeir sögðu hafa stigmagnast og geta haft alvarlegar afleiðingar fyrir alþjóðlega skipaflutninga. Utanríkisráðherra Venesúela sagði þá vera sammála um að Bandaríkin hefðu brotið alþjóðalög með aðgerðum sínum. Rússar lýstu fullum stuðningi við Venesúela og ráðherrarnir samþykktu að samhæfa aðgerðir á alþjóðasviðinu, sér í lagi á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, til að tryggja að borin væri virðing fyrir sjálfstæði ríkja og að ríki hefðu ekki afskipti af innanríkismálum annarra. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna kemur saman á morgun til að ræða vaxandi spennu milli Venesúela og Bandaríkjanna, að beiðni þess fyrrnefnda.