Ung kona hefur verið sýknuð af ákæru fyrir að hafa í tvígang stungið sextán ára dreng. Atvikið á að hafa gerst árið 2020, þegar stúlkan var fimmtán ára. Héraðsdómari segir of langan tíma hafa liðið frá meintu broti þangað til skýrslur voru teknar af vitnum, þrjú ár og fjórir mánuðir, og segir engan framburð, hvorki ungu konunnar, drengsins, né vitna, hafa verið trúverðugan. Vegna þessa sé ekki hægt að sanna sekt ungu konunnar sem var ákærð fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás. Í dómnum segir: „Allir báru þeir þess merki að langt er liðið frá atvikum máls og að bæði ákærða og vitni myndu ekki vel eftir atvikum og væru eftir fremsta megni að reyna að geta í eyðurnar. Er það mat dómsins að gegn neitun ákærðu sé útilokað að byggja sakfellingu í málinu á framburðunum. Þá verður sakfelling ekki byggð á gögnum í málinu. Það er því niðurstaða dómsins að ákæruvaldið hafi ekki axlað sönnunarbyrði sína í málinu og að ekki sé komin fram lögfull sönnun um sekt ákærðu. Er hún því sýknuð af ákæru í málinu.“ Bar sig vel með tvo 1½ cm skurði Dómurinn var kveðinn upp síðastliðinn föstudag. Í honum segir að drengurinn hafi í fyrstu ekki gert sér grein fyrir því að hann hafi verið stunginn. Að eigin sögn hafi hann ekki gert sér grein fyrir alvarleika áverka sinna fyrr en daginn eftir að hann var stunginn. Lögregla var kvödd að bráðamóttökunni í Fossvogi í októbermánuði ársins 2020. Þar var drengurinn ásamt föður sínum. Í læknisvottorði segir að drengurinn hafi ekki verið slæmur af verkjum að sjá heldur borið sig vel og andað eðlilega. Á ofanverðu baki vinstra megin milli herðablaða hafi verið skurður, um 1 cm að lengd og 1½ cm að dýpt. Sams konar skurður hafi verið hægra megin yfir ofanverðu herðablaði. Fór að sofa með stungusárin Drengurinn sagðist hafa verið úti kvöldið áður með hópi af krökkum. Stúlkan hafi komið að honum pirruð og stungið hann í bakið. Hann hafi þó ekki áttað sig á því að hann hefði verið stunginn „og ekkert spáð í þetta fyrr en hann hefði tekið eftir að það var blóð á bakinu“. Hann sagði bæði sig og stúlkuna hafa verið drukkin. Seinna um kvöldið segist drengurinn hafa hitt stúlkuna aftur á öðrum stað og hún stungið hann aftur í bakið. Hann sagðist halda að stúlkan hefði verið með vasahníf. Drengurinn kvaðst ekki muna nöfn þeirra sem voru viðstaddir og sagðist ekki halda að neinn hefði séð stúlkuna stinga sig. Eftir þetta hafi hann gengið heim og farið að sofa, ómeðvitaður um alvarleika áverka sinna. Stúlkan neitar sök Drengurinn sagði sig og stúlkuna hafa verið vini upp að þessu atviki. Hann kvað engar deilur hafa verið á milli þeirra, hann hafi aldrei lagt á hana hendur. Stúlkan var í framhaldinu handtekin á heimili sínu en neitaði sök. Hún neitaði því að hafa stungið drenginn og að hafa verið með hníf á sér þetta kvöld. Kvaðst eitt vitni hafa séð brotin eiga sér stað. Hún sagði alla viðstadda hafa verið drukkna og gat ekki lýst seinna atvikinu. Annað vitni kvaðst hafa séð átök milli drengsins og stúlkunnar en ekki séð hana stinga hann. Hún sagðist halda að áverkar á baki drengsins skýrðust af því að hann hefði dottið á nagla sem hafi staðið upp úr timburfleka.